Launagreiðslur í kvikmyndagreinum hafa dregist saman um 41 prósent frá árinu 2017. Þetta segir í tilkynningu frá BHM. Kórónuveirufaraldurinn hafi haft mun meiri áhrif á menningargreinar heldur en aðrar atvinnugreinar hér á landi.

Samdráttur í launagreiðslum í menningargreinum hefur aukist mjög á síðustu árum og starfa í dag 25 prósent færri við menningargreinar heldur en árið 2008. Þá hafa launagreiðslur í fjölmiðlum dregist saman um 45 prósent og 26 prósent í tónlistargeiranum.

Mjög hröð þróun

„Á síðustu fjórum árum hefur þróunin verið mjög hröð,“ segir í tilkynningunni. „Samdráttur í mörgum greinum var hafinn nokkuð fyrir heimsfaraldur en efnahagsáfallið í kjölfar hans bætti gráu ofan á svart.“

Þá gætu lág laun orsakað samdrátt innan einstakra greina. Laun listamanna séu meðal lægstu launa á hinum íslenska atvinnumarkaði og hafi dregist verulega aftur úr almennri launaþróun. Starfslaun listamanna hafi hækkað um 49 prósent en á sama tíma hefur launavísitalan hækkað um 96 prósent.

Þá segir enn fremur að taka þurfi á þessum vanda með festu og ættu stjórnvöld að móta stefnu um stuðning við menningu á Íslandi að norrænni fyrirmynd.