„Ég elska starfið mitt en hrós og klapp á öxlina er ekki það sem við lifum á,“ segir Jóhanna María Odds­dóttir, hjúkrunar­fræðingur á Akur­eyri. Jóhanna fékk út­borgað fyrir vinnu sína í gær en sam­tals fékk hún 251 þúsund krónur fyrir 70% vinnu.

Jóhanna er enginn ný­græðingur þegar kemur að störfum í heil­brigðis­geiranum. Hún út­skrifaðist sem sjúkra­liði árið 1996 og hjúkrunar­fræðingur árið 2011. Saman­lögð starfs­reynsla hennar er því tæp 25 ár en auk þess hefur hún setið fjölda nám­skeiða.

Jóhanna birti mynd af launa­seðlinum sínum í færslu á Face­book í gær­kvöldi og er ó­hætt að segja að færslan hafi vakið at­hygli.

Frétta­blaðið fjallaði í gær um Sól­eyju Hall­dórs­dóttur, hjúkrunar­fræðing á gjör­gæslu­deild Land­spítalans, sem furðaði sig á því að laun hennar hefðu lækkað um 41 þúsund krónur um mánaða­mótin. Þá ræddi Frétta­blaðið við Guð­björgu Páls­dóttur, for­mann Fé­lags hjúkrunar­fræðinga, sem sagði mikillar ó­á­nægju gæta með ráð­stafanir á Land­spítalanum vegna niður­fellingar vakta­á­lags­auka.

Jóhanna María starfar í heima­hjúkrun hjá Heil­brigðis­stofnun Norður­lands og er hún sem fyrr segir í 70% starfi. Heildar­laun hennar eru 399.541 krónur miðað við 70 % starf en grunn­launin miðað við 100 % starf eru 517.000. Út­borguð laun hennar eru sem fyrr segir 251.315 krónur. Að sögn Jóhönnu eru út­borguð laun venju­lega í kringum 250-278.000 krónur.

Að þessu sinni hafði hún tekið auka­vaktir á Sjúkra­húsinu á Akur­eyri til að létta undir á­laginu og því kemur 50% nýting per­sónu­af­sláttar fram á launa­seðlinum.

„Þetta er al­gjör­lega ó­líðandi. Við erum búnar að vera samnings­lausar í meira en ár og þar áður var settur gerðar­dómur á okkur. Þannig að í raun og veru erum við búnar að vera samnings­lausar miklu lengur. Sá samningur bar líka svo­lítið merki um hrunið – það var ekki hægt að fá meira. Svo snýst þetta ekki bara um launa­töfluna heldur líka starfs­að­stæður og vinnu­tíma,“ segir Jóhanna í sam­tali við Frétta­blaðið.

Jóhanna segir að ýmis­legt mæta bæta hvað varðar starfs­að­stæður hjá hjúkrunar­fræðingum. Áður en Jóhanna fór að sinna heima­hjúkrun starfaði hún á spítala og hefur því á­gæta yfir­sýn yfir að­stæður hjúkrunar­fræðinga þar.

„Í raun og veru eru það þannig að það er engin virðing borin fyrir til dæmis hvíldar­tíma. Matar- og kaffi­tíma sömdum við af okkur. Það vantar til dæmis tölur um sjúk­linga á hvern hjúkrunar­fræðing og ýmis­legt í þeim dúr. Síðustu tvö eða þrjú ár höfum við verið að skipta sumar­fríunum okkar, taka 2 og 3 vikur í einu og eiga frí inni, vegna mönnunar­vanda. Í rauninni vantar fleiri hjúkrunar­fræðinga en það er aldrei til peningur til að ráða þá í vinnu.“