Kínverska stjórnin hefur kerfisbundið brotið á múslímskum Úígúr-konum í Xinjiang í vesturhluta landsins með það að markmiði að reyna að minnka hlutfall þjóðarbrotsins í landinu. Samkvæmt nýrri rannsókn fréttastofunnar AP hafa hundruð þúsunda kvenna verið neydd til að nota getnaðarvarnir, kannað hefur verið hvort þær séu þungaðar og þungunarrof verið framkvæmt gegn vilja þeirra.

Aftur á móti hafa Han-konur í héraðinu verið hvattar til barneigna og almennar kínverskar reglur um barneignir eiga ekki við fyrir þann hóp. En mikill meirihluti Kínverja er af Han-þjóðflokknum.

Mannréttindabrot Kínverja á Úígúrum, sem eru 25 milljónir, eru vel þekkt. Í fyrra var skjölum lekið úr gagnagrunnum alþýðulýðveldisins þar sem fram kom að meira en einni milljón þeirra er haldið í skipulögðum fangabúðum, ótímabundið og háð því hversu vel fólkið tekur „endurmenntun“. Meðferðinni í búðunum hefur verið lýst sem hroðalegri og óútskýrð dauðsföll eru fjölmörg.

„Pörumst og verðum fjölskylda“

Flestir sem dvelja í fangabúðunum eru karlmenn. Síðan 2017 hafa kínversk stjórnvöld neytt eiginkonur þeirra til að taka á móti Han-karlmönnum, útsendurum Kommúnistaflokksins, inn á heimili sín á meðan þeir eru í búðunum. Kallast prógrammið „Pörumst og verðum fjölskylda“ og er sagt skipulagt til að efla samkennd milli þjóðflokkanna. Hlutverk útsendaranna er að fræða konurnar um hugmyndafræði kommúnismans en þeir sofa einnig í sömu rúmum og þær.

„Þeir vilja eyðileggja okkur sem þjóð,“ segir Gulnar Omirzakh, Úígúr-kona sem flúði til Kasakstans. Eftir að hún eignaðist sitt þriðja barn var hún neydd til að setja upp lykkjuna og sektuð um 360 þúsund krónur. Bláfátæk og með eiginmann í fangabúðum sá hún engan annan kost en að flýja. Annars hefði hún sjálf endað í búðunum.

Sprautuð þar til hún hætti að fara á blæðingar

Önnur kona, Tursunay Ziyawudun, lýsir því að hafa verið send í búðirnar og sprautuð þar til hún hætti að fara á blæðingar. Einnig að sparkað hafi verið margsinnis í neðri hluta kviðar hennar í yfirheyrslum og geti hún nú ekki eignast börn.

Rannsókn AP leiðir í ljós að á aðeins fimm árum hefur fólksfjölgun í Xinjiang fallið um meira en 60 prósent. Árið 2015 var fjölgunin þar mest í öllu landinu en nú er héraðið meðal þeirra þar sem mest stöðnun ríkir í fólksfjölda. Tugmilljörðum króna hefur verið varið í getnaðarvarnir og ófrjósemisaðgerðir í héraðinu.

Um áratuga skeið var svokölluð „eins barns regla“ í gildi í Kína og hræðsla við offjölgun mikil. Þetta átti hins vegar aðeins við Han-fólk en ekki þjóðarbrot víðs vegar um landið. Þegar forsetinn Xi Jinping komst til valda árið 2013 var stefnunni snúið við og Han-fólk má eiga allt að þremur börnum. Í Xinjiang er ekki fylgst með barneignum Han-fólks og talið að stefnan sé að koma því í meirihluta í héraðinu. Auk þess hefur fjöldi Han-fólks verið fluttur til svæðisins á undanförnum 20 árum. Í dag er hlutfall þeirra um 40 prósent í Xinjiang og ekki langt í að það verði komið yfir hlutfall Úígúra.