„Smitum hefur fjölgað frá júníbyrjun og það hefur verið hröð aukning, nánast dag frá degi,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnarlæknis, en samkvæmt nýjustu tölum liggja fjörutíu og fjórir einstaklingar á sjúkrahúsi, þar af þrír á gjörgæslu.
Ekki eingöngu eldra fólk
Kamilla segir innlagnirnar aðallega vera hjá eldra fólki, en þó sé það ekki eini hópurinn sem sé að leggjast inn.
„Alvarlegustu veikindin, gjörgæsluinnlagnirnar, hafa aðallega verið óbólusettir einstaklingar á ýmsum aldri. En margir þeirra hafa stoppað frekar stutt á gjörgæslunni,“ segir Kamilla.
Aðspurð segir Kamilla engin sérstök teikn um að það afbrigði sem nú herji á landsmenn sé alvarlegra en áður. Þá séu engin sérstök ný einkenni.
„Bólusetningarnar virðast halda áfram að vernda gegn alvarlegum veikindum. Þó geta einstaklingar með mikla undirliggjandi áhættu, sérstaklega þeir sem eru ónæmisbældir, notið minni ávinnings af bólusetningunni og geta orðið alvarlega veikir.“
Andvaraleysi almennings
Aðspurð um ástæðu þessarar miklu aukningar segir Kamilla að hana megi að mestu leyti rekja til andvaraleysis almennings. Fólk sé almennt ekki að fara í próf.
„Ég held að fólk sé svolítið búið að afskrifa Covid út af því að það er búið að fella niður Covid reglurnar. Jafnvel þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eða eru óbólusettir hafa ekki varann á sér. Fara ekki í próf eða jafnvel taka bara heimapróf og hafa þá ekki samband við heilsugæsluna, sem gæti þá varað þá við og hvatt þá til að leita sér aðstoðar til að fá meðferð til að fyrirbyggja alvarleg veikindi,“ segir Kamilla.
Hún hvetur fólk almennt til að hafa varann á sér og fara í próf ef það finnur fyrir einkennum, þá sérstaklega fólk í áhættuhópum.
„Það er best fyrir fólk sem er með undirliggjandi áhættuþætti að fara sem fyrst í staðfestingarpróf og vera í sambandi við heilsugæsluna til að fá leiðbeiningar um hvernig það getur komist í viðeigandi meðferð.