„Smitum hefur fjölgað frá júní­byrjun og það hefur verið hröð aukning, nánast dag frá degi,“ segir Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir, stað­gengill sótt­varnar­læknis, en sam­kvæmt nýjustu tölum liggja fjöru­tíu og fjórir ein­staklingar á sjúkra­húsi, þar af þrír á gjör­gæslu.

Ekki eingöngu eldra fólk

Kamilla segir inn­lagnirnar aðal­lega vera hjá eldra fólki, en þó sé það ekki eini hópurinn sem sé að leggjast inn.

„Al­var­legustu veikindin, gjör­gæslu­inn­lagnirnar, hafa aðal­lega verið óbólu­settir ein­staklingar á ýmsum aldri. En margir þeirra hafa stoppað frekar stutt á gjör­gæslunni,“ segir Kamilla.

Að­spurð segir Kamilla engin sér­stök teikn um að það af­brigði sem nú herji á lands­menn sé al­var­legra en áður. Þá séu engin sér­stök ný ein­kenni.

„Bólu­setningarnar virðast halda á­fram að vernda gegn al­var­legum veikindum. Þó geta ein­staklingar með mikla undir­liggjandi á­hættu, sér­stak­lega þeir sem eru ó­næmis­bældir, notið minni á­vinnings af bólu­setningunni og geta orðið al­var­lega veikir.“

Andvaraleysi almennings

Að­spurð um á­stæðu þessarar miklu aukningar segir Kamilla að hana megi að mestu leyti rekja til and­vara­leysis al­mennings. Fólk sé al­mennt ekki að fara í próf.

„Ég held að fólk sé svo­lítið búið að af­skrifa Co­vid út af því að það er búið að fella niður Co­vid reglurnar. Jafn­vel þeir sem eru með undir­liggjandi sjúk­dóma eða eru óbólu­settir hafa ekki varann á sér. Fara ekki í próf eða jafn­vel taka bara heima­próf og hafa þá ekki sam­band við heilsu­gæsluna, sem gæti þá varað þá við og hvatt þá til að leita sér að­stoðar til að fá með­ferð til að fyrir­byggja al­var­leg veikindi,“ segir Kamilla.

Hún hvetur fólk al­mennt til að hafa varann á sér og fara í próf ef það finnur fyrir ein­kennum, þá sér­stak­lega fólk í á­hættu­hópum.

„Það er best fyrir fólk sem er með undir­liggjandi á­hættu­þætti að fara sem fyrst í stað­festingar­próf og vera í sam­bandi við heilsu­gæsluna til að fá leið­beiningar um hvernig það getur komist í við­eig­andi með­ferð.