Alda Sigurðardóttir stjórnendaþjálfi var gestur í Markaðnum á Hringbraut í gær. Þar var meðal annars rætt um þau hneykslismál sem skekið hafa íslenskan viðskiptaheim þar sem háttsettir menn hafa verið vændir um að hafa farið yfir kynferðisleg mörk í samskiptum sínum við aðra.

„Ég fór í þjálfun hjá konu sem heitir Laura Crawshaw og er doktor í sálfræði og hefur sérhæft sig í því sem kallast „abrasive leaders“ eða hrjúfir leiðtogar, ekki ljúfir heldur hrjúfir, og eru gerendur í eineltismálum og kynferðismálum,“ segir Alda. „Ég er ekki að gera út á þessi mál í minni stjórnendaþjálfun en hef leitað mér þekkingar til þess að hafa betri skilning á þessu.

Dr. Laura Crawshaw var með vinnustofu hér í Reykjavík í samvinnu við fyrirtæki mitt þar sem notuð var ákveðin aðferðafræði. Fólk kom alls staðar að á þessa vinnustofu. Þarna voru meðal annars mættir stjórnendur úr einni stærstu alþjóðastofnun heims, þarna var líka stjórnandi úr skólakerfinu í Skotlandi og stjórnandi úr einum stærsta fjárfestingarbanka Ameríku. Allir voru að sækja sér þekkingu á hvernig eigi að takast á við þetta vandamál, það er bæði stórt og raunverulegt,“ segir Alda.

Hún segir að mörg amerísk fyrirtæki séu að meðhöndla þessi mál mjög vel. Þau byrji á því að innræta ákveðna menningu strax í atvinnuviðtalinu. Þar er fyrirtækjamenningin útskýrð og farið yfir ýmis atriði sem flest okkar myndu segja að væru almenn skynsemi, svo sem að bjóða góðan daginn, en einnig hvaða hegðun sé ekki umborin og að fyrirtækin hiki ekki við að segja fólki upp sem sýni slíka ósæmilega hegðun.

Alda segir að þannig sé hægt að skapa fælingarmátt strax í upphafi. Einnig sé fólk þjálfað í samskiptum til þess að það sé betur í stakk búið til að meta hvað má og hvað ekki og hvaða afleiðingar slík hegðun hefur. Einnig sé mikilvægt að efla hæfni stjórnenda í að stöðva svona mál í fæðingu.

„Um leið og maður verður var við eitthvað sem passar ekki, einhver skot á náungann eða niðurlægingu á fundum, þá þarf að hafa hugrekki til þess sem stjórnandi að stoppa það strax,“ segir Alda Sigurðardóttir stjórnendaþjálfi.

Leiðrétting vegna fyrirsagnar

Gerendur í eineltis- og kynferðisbrotamálum í fyrirtækjaheiminum eru oft það sem kallast hrjúfir stjórnendur. Það þýðir alls ekki að allir hrjúfir stjórnendur séu kynferðisbrotamenn. Það er mjög mikilvægt að leiðrétta þetta, og einnig að ítreka að það eru líka mörg dæmi um að hinir ljúfustu menn sèu líka mjög alvarlegir gerendur. Í Fréttablaðinu í dag er frétt með fyrirsögninni Hrjúfir stjórnendur reynast of vera gerendur kynferðisbrota. Þetta er röng fyrirsöng. Þarna á að standa gerendur í kynferðisbrotamálum reynast oft vera hrjúfir stjórendur. Beðist er velvilvirðingar á þessu. Ekkert í viðtalinu við Öldu Sigurðardóttur stjórnendaþjálfa styður við hina röngu fyrirsögn.