Landsréttur staðfesti í gær þrjátíu daga fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára, yfir manni sem hrinti konu út úr íbúð sinni í Reykjavík.

Atvikið átti sér stað um nótt í október 2019, en manninum var gefið að sök að hrinda konunni út um hurðina á íbúð sinni sem varð til þess að hún féll í jörðina og hlaut áverka fyrir vikið.

Maðurinn og konan virðast hafa verið í einhverskonar sambandi þegar atvikið átt sér stað, en fyrr um kvöldið höfðu þau verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur, og bæði verið ölvuð. Í vitnisburði konunnar segir að hún hafi hitt gamlan skólafélaga á skemmtistað og spjallað við hann, en manninum hafi mislíkað það og rakið í burtu.

Síðan hafi þau tekið leigubíl saman heim til hans. Þar virðast rifrildi þeirra á milli að hafa átt sér stað, sem endaði með atvikinu sem málið varðar.

Dómurinn féll í Landsrétti í gær.

Maðurinn neitaði sök, en viðurkenndi að hafa ýtt konunni laust til að koma henni úr íbúðinni og sagðist hafa verið búinn að biðja hana um að fara út. Hann sagðist ekki hafa ætlað að meiða hana.

Konan sagði hann hafa ýtt sér með krafti með báðum höndum úr íbúðinni og hún fallið niður um tvær tröppur. Læknir staðfesti að hún hlaut áverka á nefi og hægra handarbaki sem pössuðu við lýsingar hennar. Þá kemur fram að þegar lögreglu bar að garði hafi verið blóðblettur á gangstétt fyrir framan útidyr hússins verið blóðblettur og blóðkám á húsvegg.

Í dómi Landsréttar kemur fram að konan hafi síðar tekið upp samtal sitt og mannsins eftir atburðina, án hans vitundar. Þar hafi hann svarað henni: „Já ég henti þér út um hurðina.“

Dómurinn mat það svo að maðurinn hefði gerst sekur um verknaðinn og taldi ljóst að um ásetning væri að ræða. Líkt og áður segir hlaut maðurinn þrjátíu daga fangelsisdóm og er gert að greiða konunni 250 þúsund krónur.