Sigurður Ingi Jóhannson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra opnaði formlega nýjan vegkafla þjóðvegar 1 í Berufirði í dag þar sem áður var síðasti malarkafli Hringvegar 1. Er hringvegurinn því loks bundinn slitlagi allan hringinn. Héraðsverk og MVA hafa fyrir Vegagerðina lagt nýjan veg með brú yfir Berufjarðarbotn norðan við Djúpavog. Framkvæmdirnar hófust árið 2017 og átti þeim upphaflega að ljúka í september í fyrra en vegna veikra laga í sjó og þeirra viðbótarfyllinga sem þar urðu, náðist ekki að ljúka því fyrr en nú í sumar.

Hringleiðin hefur nú styst um 3,6 kílómetra en vegurinn fer ekki lengur fyrir botn fjarðarins.

„Það er stórmunur fyrir vegfarendur að þurfa ekki lengur að keyra möl, segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri í Djúpavogshreppi. „Það er engin spurning, þetta var síðasti malarkaflinn á hringvegi 1 og það skiptir gríðarlega miklu máli að geta ekið hann á bundnu slitlagi,“ segir Gauti.

Nýr kafli Hringvegar um Berufjarðarbotn er 4,9 km langur, þar af liggur um 1 km yfir sjó og um leirur. Vegurinn er 8 metra breiður með bundnu slitlagi. Ný brú í Berufjarðarbotni er steinsteypt, 50 m löng og 10 m breið. Nýjar vegtengingar að bæjum á Hvannbrekku og Berufirði eru samtals 1,6 km langar.

Í meðfylgjandi myndbandi sem samgönguráðherra birti fyrir stuttu sést hann opna nýja veginn og lætur hann hamingjuóskir til allra landsmanna fylgja færslunni.

„Til hamingju Ísland og landsmenn allir. Nú er Hringvegur 1 bundinn slitlagi allan hringinn, 1322 km,“ segir Sigurður Ingi.

„Það tók 45 ár frá því að hringvegurinn opnaðist 1974. Já, samgöngubætur taka oft langan tíma - en takast að lokum.“