Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru seinni partinn í dag afhent við athöfn í Karólínustofu innan af Jamie's Italian á Hótel Borg. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2006 og eru þau til þess fallin að vekja athygli á því sem vel er gert í íslensku samfélagi. Í dómnefnd að þessu sinni sátu Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, Guðmundur Steingrímsson, blaðamaður og fyrrverandi þingmaður og Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi og ritstjóri Fréttablaðsins.

Sá sem hlýtur svo Samfélagsverðlaunin fær 1,2 milljónir króna. Sigurvegarar í öðrum flokkum fá kaffivél frá Heimilistækjum.

Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum, en þeir eru: 

Hvunndagshetjan 

Einstaklingur sem hefur sýnt  einstaka óeigingirni eða hugrekki  -  við einn atburð eða með vinnu að ákveðnum málaflokki í lengri tíma.

Frá kynslóð til kynslóðar 

Hér koma til greina kennarar, leiðbeinendur, þjálfarar eða aðrir sem skarað hafa fram úr á einhvern hátt. Einnig koma til greina félagasamtök sem sinna börnum af sérstökum metnaði og alúð.

Til atlögu gegn fordómum 

Einstaklingur eða félagasamtök sem hafa unnið ötullega að því að eyða fordómum í samfélaginu.

Heiðursverðlaun 

Einstaklingur sem hefur helgað líf sitt baráttu fyrir betra samfélagi.

Samfélagsverðlaunin 

Félagasamtök sem hafa unnið framúrskarandi mannúðar- eða náttúruverndarstarf og lagt sitt af mörkum til að gera íslenskt samfélag betra fyrir okkur öll. Verðlaunafé fyrir sjálf samfélagsverðlaunin er 1,2 milljónir króna.

Samfélagsverðlaunin hlaut kvenfélagið Hringurinn, hvunndagshetjan var Guðmundur Fylkisson, í flokknum Frá kynslóð til kynslóðar hlaut Atli Svavarsson verðlaun, Páll Óskar Hjálmtýsson í flokknum Til atlögu gegn fordómum og Herdís Egilsdóttir heiðursverðlaunin.

Sjá má allar tilnefningar í áðurnefndum flokkum hér fyrir neðan ásamt rökstuðningi.

Frá kynslóð til kynslóðar

Edda Borg Ólafsdóttir

Edda hóf kennslu sem tónmenntakennari í Seljaskóla um tvítugt. Skömmu síðar stofnaði hún Tónskóla Eddu Borg en skólinn verður þrítugur á næsta ári.  Í öll þessi ár hefur Edda unnið ötullega að tónlistarkennslu og margir sem stigu sín fyrstu skref í skólanum gerðu tónlistina að ævistarfi.  Hún er enn að og stýrir skólanum sínum af áhuga og metnaði.  

Atli Svavarsson (hlýtur verðlaun)

Atli er nýorðinn ellefu ára.   Í febrúar 2017 stofnaði hann verkefnið sitt #savetheworld.   Það snýst um að tína rusl í náttúrunni.  Á þessu rúma ári hefur Atli tínt rusl – ekki síst á leið sinni til og frá skóla og fengið svo fjölskyldu sína til að fara saman í lengri leiðangra.  Með þessu frumkvæði hefur Atli haft jákvæð áhrif á aðra og verið öðrum hvatning til að gera slíkt hið sama; ef allir leggja sitt af mörkum, þá sé hægt að hafa áhrif.

Miðstöð foreldra og barna

Miðstöðin sérhæfir sig í meðferð fyrir verðandi foreldra og börn að eins árs aldri, einkum ætluð foreldrum sem eiga í tilfinninga- eða geðheilsu vanda.    Foreldrar geta einnig leitað til miðstöðvarinnar ef barn sýnir lítil viðbrögð, grætur mikið eða á erfitt með að nærast eða hvílast.  Markmið meðferðar er að efla getu foreldra til að mynda örugg tengsl við börn sín og styrkja þá í foreldrahlutverkinu á viðkvæmustu mótunarárum barnanna. 

Hvunndagshetjan  

Guðmundur Fylkisson (hlýtur verðlaun)

Guðmundur er aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hefur sérhæft sig í að leita týndra ungmenna; ungmennanna sem við sjáum svo oft lýst eftir í fjölmiðlum.   Haft hefur verið eftir Guðmundi, að hann kalli þessi ungmenni börnin sín, enda fer hann af stað á öllum tímum sólarhrings til að hafa uppi á ungmennunum.   Hann hefur leitað að 220 einstaklingum síðan verkefnið fór af stað í nóvember 2014 og öll eru þau á lífi. 

Þormar Melsted

Með árvekni sinni bjargaði Þormar væntanlega mannslífum, þegar loft í eimbaði Sundhallar Reykjavíkur féll niður.  Þormar hafði veitt því athygli að loftið í þessu nýja eimbaði var einkennilegt í laginu.  Í þeim hugleiðingum, stóð hann upp og sá að loftið, sem var tvö til þrjú hudruð kíló af loftflísum var að falla niður í einu lagi.  Um tíu manns voru inni í eimbaðinu.  Þormar æpti upp, opnaði hurðina og fólkið þusti út á sekúndubrotum áður en loftið skall á gólfinu.  

Tolli Morthens

Tolli fær tilnefningu fyrir vinnu sína með ungum karlmönnum, sem lent hafa á glapstigum.  Hann hefur um árabil heimsótt fangelsi landsins og hjálpað ungum mönnum sem glíma við fíknivanda og sitja á bakvið lás og slá, meðal annars með því að kenna þeim hugleiðslu.   Margir þessara ungu manna þakka honum annað tækifæri í lífinu.    

Til atlögu gegn fordómum   

Hugrún

Hugrún er geðfræðslufélag.  Hér er það tilnefnt fyrir átakið Hugum að geðheilbrigði;  #huguð þar sem ungt fólk, stelpur og strákar,  stígur fram og lýsir baráttu sinn við geðsjúkdóma.   Unga fólkið lýsir og ræðir um líf sitt með sjúkdóminn, fordóma og mikilvægi þess að leita sér hjálpar.  

Páll Óskar Hjálmtýsson (hlýtur verðlaun)

Pál Óskar þarf vart að kynna.  Hann hefur um árabil talað máli samkynhneigðra með jákvæðum og uppbyggilegum hætti, alltaf með gleðina og kærleikann að vopni.  Hann er söngvari og lagahöfundur, varð fyrir áhrifum af einelti í skóla.  Hann hefur gefið út nokkrar breiðskífur, sú þekktasta metsöluplatan Allt fyrir ástina kom út 2007.  

Sendiherrarnir sjö

Sendiherrarnir eru 7-manna hópur fólks með þroskahömlun, sem hefur tileinkað sér ákvæði samnings Sameinuðu þjóðannna um réttindi fatlaðs fólks.  Sendiherrarnir hafa farið um allt land, haldið kynningarfundi á vernduðum vinnustöðum, í framhaldsskólum og víðar, þar sem kynnt eru réttindi fatlaðs fólks og mikilvægi þess að þekkja réttindi sín - fyrir fólki með þroskahömlun og öðrum áhugasömum um jafningjafræðslu.   

Heiðursverðlaun               

Herdís Egilsdóttir 

Herdís er fyrrverandi kennari við Ísaksskóla og rithöfundur.  Framlag hennar til lestrarkennslu barna er ómetanlegt.  Hún er þó hvergi nærri hætt og rekur vefsíðuna læsi.is.   Herdís gaf nýlega út bókina „Það kemur saga út úr mér“ sem ætluð er til lestrarkennslu.  Herdís er landsþekkt fyrir ástríðu sína fyrir læsi barna, hún kenndi í 45 ár og lærðu hundruð barna að lesa undir handleiðslu hennar.     

Samfélagsverðlaunin   

Frú Ragnheiður

Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll sem er ekið um götur höfuðborgarsvæðisins á kvöldin, sex kvöld í viku.  Tilgangurinn er að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og heimilislausra einstaklinga og einstaklinga sem nota vímuefni um æð. Í bílnum er starfrækt hjúkrunarmóttaka þar sem einstaklingar geta komið og sótt sér hreinar nálar, sprautur, nálabox og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti svo og fengið almenna heilsufarsráðgjöf. 

Hringurinn (hlýtur verðlaun)

Hringurinn er kvenfélag, stofnað árið 1904.  Markmið félagsins er að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna.

Hringskonur vinna allt árið um kring að því að safna fé í Barnaspítalasjóðinn. Sala jólakorta, jólakaffi, -basar og -happdrætti eru fastir liðir í starfseminni.  Allt fé sem Hringskonur safna, gjafir og áheit rennur óskipt í Barnaspítalasjóð Hringsins. Allt starf er unnið í sjálfboðavinnu, yfirbygging félagsins er engin og félagið er rekið með félagsgjöldum Hringskvenna sjálfra.

Samfok

Er tilnefnt vegna verkefnisins Allir með – tölum saman um skólamenningu á Íslandi sem Samfok og Móðurmálssamtökin hafa staðið fyrir í vetur með fjölda málþinga og funda með fókus á erlenda foreldra.  Allir með – er vettvangur fyrir foreldra með ólíkan menningarbakgrunn og tungumál, sem fá tækifæri til að fræðast um íslenskt skólasamfélag, tómstundir og fleira sem nýtist börnum þeirra.  Og síðast en ekki síst að skiptast á skoðunum um hvernig megi gera hlutina betur.