Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast í gærkvöld og nótt. Laust fyrir klukkan tíu í gærkvöldi fékk lögregla tilkynningu um líkamsárás í Bústaðarhverfi. Þar hafði maður nokkur hringt dyrabjöllu og þegar húsráðandi kom til dyra ræðst maðurinn á húsráðanda. Þegar lögreglu bara að garði var maðurinn á bak og burt, en telur sig vita um hvern er að ræða. Ekki fylgir sögunni um áverka húsráðanda. Málið er nú í rannsókn.
Um svipað leyti var tilkynnt um slys í miðbænum, en þar hafði ung stúlka dottið af rafhlaupahjóli og fengið höfuðhögg. Stúlkan reyndist meðvitundarlaus fyrst um sinn, en andaði þó. Þegar lögreglu og sjúkraflutningamenn bar að garði var hún komin til meðvitundar.
Þá voru tvö önnur slys í kjölfar falls af rafskútu tilkynnt til lögreglu rétt fyrir miðnætti.
Lögregla fékk tilkynningu um rán í Breiðholti um kvöldmatarleytið í gær, þar sem grímuklæddur maður kom inn í verslun, fer ránshendi um sjóðsvél og lætur sig hverfa.
Þá var tilkynnt um líkamsárás í Laugardalnum rétt fyrir klukkan eitt í nótt. Árásarmaður var handtekinn og vistar nú fangageymslu lögreglu en málið er í rannsókn. Að sögn lögreglu eru áverkar árásarþola minniháttar.
Tilkynnt var um þjófnað á veitingastað í miðborginni, en sá fingralangi hafði með sér yfirhöfn með nýlegum farsíma í eigu gests staðarins. Verðmæti góssins eru sögð vera um 400 þúsund krónur.
Þá fékk lögregla tilkynningu um líkamsárás í miðborginni laust fyrir klukkan fjögur í nótt, en árásaraðili var handtekinn er lögreglu bar að garði. Hann vistar nú fangageymslu lögreglu í þágu rannsóknar málsins. Að svo stöddu er ekki vitað um áverka árásarþola.
Lögregla þurfti að hafa afskipti af manni á veitingastað í miðborginni um hálffimm í nótt, en þegar lögreglu bar að garði höfðu dyraverðir yfirbugað manninn og höfðu hann í taki. Hann reyndist í annarlegu ástandi og hafði uppi ógnandi tilburði við lögreglu. Sá var handtekinn, en hann fór ekki að fyrirmælum lögreglu, né vildi hann gefa upp nafn eða kennitölu. Maðurinn var fluttur rakleiðis niður á stöð þar sem hann gistir nú fangageymslu og er málið í rannsókn.