Þrátt fyrir að engir jarð­skjálftar yfir þremur hafi orðið á Reykja­nes­skaga frá því um há­degi í dag fer því fjarri að tala megi um að skjálfta­hrinan sé að róast mikið. Fjöldi minni skjálfta mælist þar með mjög reglu­legu milli­bili og hafa alls orðið um 2.500 skjálftar á svæðinu frá mið­nætti. Þeir voru um 3.000 síðasta sólar­hring.

Engar til­kynningar hafa þó borist Veður­stofunni frá fólki sem fann fyrir skjálfta í byggð frá því um há­degi. Að­spurður hvort færri stórir skjálftar þýði að hrinan fari nú loks að detta niður segir vakt­hafandi veður­fræðingur ein­fald­lega: „Við vitum það ekki. Það er í raun ekkert hægt að segja til um það.“

Á vef Veður­stofunnar má finna ítar­lega færslu jarð­fræðinga um stöðuna á Reykja­nes­skaganum, sem birt var í kvöld. Þar eru teiknaðar upp fjórar lík­legustu sviðs­myndirnar:

  • Það dregur úr jarð­skjálfta­virkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í ná­grenni við Fagra­dals­fjall
  • Skjálfti af stærða allt að 6.5 verður sem á sér upp­tök í Brenni­steins­fjöllum
  • Kviku­inn­skot haldi á­fram í ná­grenni við Fagra­dals­fjall
    • Kviku­inn­skots­virkni minnkar og kvika storknar
    • Leiðir til flæði­goss með hraun­flæði sem mun lík­lega ekki ógna byggð


Hafa fjölgað mæli­tækjum


Sér­fræðingar Veður­stofunnar, Há­skólans og annarra sam­starfs­aðila þeirra hafa unnið hörðum höndum síðustu daga við að fjölga mæli­tækjum á svæðinu til að draga upp skýrari mynd af at­burða­rásinni.