„Þetta er mjög slæmt, maður vonaðist til þess að þeir myndu halda opnunartímunum og krefjast þess að fólk væri sitjandi við borðið á þeim stað sem opnunartími hefur leyfi fyrir. Þetta hentar veitingastöðum vel en kemur hrikalega niður á börum og skemmtistöðum þar sem háannatíminn er eftir klukkan ellefu. Vonandi temur fólk sér að koma fyrr inn á bari aftur,“ segir Arnar Þór Gíslason, einn af eigendum fyrirtækisins Þingvangs sem rekur fimm knæpur í miðbæ Reykjavíkur, aðspurður út í nýju reglurnar sem taka gildi á miðnætti.

„Þetta er mikið áfall fyrir reksturinn. Við erum búin að ráða marga inn á stuttum tíma en nú fáum við sólarhring frá stjórnvöldum til að skella í lás. Ég vonast bara til þess að stjórnvöld verði jafn lengi að undirbúa styrkúthlutanir en ekki hálft ár. Stjórnvöld ætlast til að við vinnum hratt og vel á einum sólarhring og þau ættu að geta gert það sama,“ segir Arnar, aðspurður hvaða áhrif þetta hefði á reksturinn.

„Ég á von á því að menn geri allt í sínu valdi til að halda sér á floti á meðan á þessu stendur enda reynslunni ríkari. Um leið ættu stjórnvöld að geta kallað fólk úr sumarfríi til að sinna styrkúthlutun til fyrirtækja sem er verið að loka. Það eru margir búnir að panta birgðir fram í tímann og staðan er ekki öfundsverð víðs vegar þar sem áttu að vera útihátíðir. Um leið vonast maður til þess að þau verði jafn fljót að aflétta takmörkunum ef þetta gengur vel á þessum þremur vikum.“