Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) heiðrar þjónustu- og afrekshunda ársins í dag, á nóvembersýningu félagsins, Winter Wonderland-sýningunni. Sýningin er haldin í Samskipahöll Sprettara í Kópavogi.

„Margar frásagnir eru til af hetjudáðum „besta vinar mannsins“ sem hafa snortið hjörtu okkar,“ segir í tilkynningu HRFÍ. „Ekki eru gerðar kröfur um að hundurinn sé hreinræktaður og allar tilnefningar eru vel þegnar jafnvel þótt langt sé um liðið.“

Afrekshundurinn þarf með einhverjum hætti að hafa komið að björgun manna eða dýra, liðsinnt fötluðum eða veikum, verið til uppörvunar eða hjálpað á annan hátt.

Þjónustuhundar eru þeir sem vinna allan ársins hring að þjónustu í samfélaginu. Til dæmis björgunarhundar, lögregluhundar og fíkniefnahundar.

Afreks- og þjónustuhundarnir verða heiðraðir klukkan 15.15.