Hreppsnefnd Skorradalshrepps staðfesti á laugardag stöðvun slóðarlagningar í hlíðum fjallsins Dragafells. Einnig var staðfest stöðvun á gróðursetningu trjáplantna vestan Dragár þar sem búið var að plægja fyrir gróðursetningu.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að lögregla hefði verið kölluð til vegna málsins og yfirheyrt bæði skógarvörð og verktaka. En það var eftir að skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins, kallaði lögregluna til eftir ábendingar um slóðarlagninguna. Skógræktin segir framkvæmdina alvanalega.

Stöðvunin er gerð á þeim grundvelli að ekki liggi framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni. Samkvæmt hreppsnefndinni hefur slóðarlagningin áhrif á umhverfið, breytir ásýnd þess og er ekki í samræmi við aðalskipulag. Hið plægða land sé á skilgreindu hverfisverndarsvæði.

Ottó Björgvin Óskarsson, lögfræðingur hjá Skipulagsstofnun, segir að samkvæmt skipulagslögum skuli afla framkvæmdaleyfis hjá sveitarstjórnum vegna allra meiriháttar framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess,.

Svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Slóðargerð sem slík sé þó ekki sérstaklega tilgreind í lögum.

Einnig að það sé í höndum leyfisveitandans sjálfs að meta hvort framkvæmd sé leyfisskyld falli hún ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

Vafamálum sé hægt að skjóta til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

Ottó segir skipulagsfulltrúa geta stöðvað framkvæmdir og krafist þess að jarðrask sé afmáð. „Sinni framkvæmdaaðili ekki þeirri kröfu er heimilt að framkvæma slíkar aðgerðir á hans kostnað,“ segir Ottó.

Ottó Björgvin Óskarsson, lögfræðingur hjá Skipulagsstofnun