Sveitarstjórnir fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu hafa ákveðið að kosið verði um sameiningu þann 5. júní næstkomandi.
Sameiningin var kynnt á tveimur rafrænum íbúafundum síðastliðinn miðvikudag og laugardag. Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, segir yfirgnæfandi jákvæðni hafa ríkt á fundunum.
Auk þessara tveggja sveitarfélaga eru tvö minni í viðræðunum, Skagabyggð og Húnavatnshreppur. Valdimar segir að brátt verði fundað um framkvæmdina og hvað gerist ef sameining verður felld einhvers staðar. Það er hvort hin geti sameinast beint eða ferlið verði að hefjast upp á nýtt.
Árið 2005 var sameining Austur-Húnavatnssýslu felld með afgerandi hætti. Á Blönduósi var hún samþykkt með 86 prósentum atkvæða en felld í hinum þremur, á Skagaströnd með 92 prósentum. Valdimar telur að meiri jákvæðni sé fyrir sameiningu nú.
„Helsti ágreiningurinn er hinn gamalgróni hrepparígur. Kannski sérstaklega milli Skagastrandar og Blönduóss,“ segir Valdimar. „Það er líka alltaf ótti við að stjórn og þjónusta verði of miðlæg á einum stað.“
Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Skagastrandar, segir ágreining hafa legið í staðsetningu stjórnsýslunnar og starfa. „Íbúar hafa áhyggjur af áskorunum tengdum skólamálum þar sem fyrirhugað er að sameina Húnavallaskóla og Blönduskóla,“ segir hún. „Eðlilega eru margir hræddir við óvissuna sem óhjákvæmilega fylgir miklum breytingum.“
Öll fjögur sveitarfélögin eru undir 1.000 íbúa lágmarki nýs frumvarps Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Valdimar er ekki fullkomlega sannfærður um að sá hluti frumvarpsins rati þó inn í löggjöfina og Alexandra segir það beinlínis ólíklegt.
„Við vildum þó láta reyna á þetta áður en lögin taka gildi. Enginn vill fara í lögþvingaða sameiningu frekar en lögþvingað hjónaband,“ segir Valdimar og hefur efasemdir um að þvinguð sameining yrði farsæl.
Samanlagður íbúafjöldi er aðeins 1.900 manns og hafa sveitarfélögin þegar mikið samstarf í gegnum byggðasamlög.
Samkvæmt Valdimari kom fram vilji til að binda hnútinn á þessa sífelldu umræðu. „Fólki finnst óþarfi að vera með fjögur sveitarfélög á þessu svæði,“ segir hann og bendir á að stórar sameiningar hafa orðið bæði til austurs og vesturs, það er í Skagafirði og Húnaþingi vestra.
„Það er fjárhagslegur hvati í Jöfnunarsjóði til sameiningar, fjármunir til skuldajöfnunar og enduruppbyggingar stjórnsýslunnar. Margir hefðu þó viljað sjá meiri hvata af hálfu hins opinbera, svo sem samgöngubætur eins og oft vill verða í sameiningum.“