Aldrei hafa fleiri grasker verið seld á Íslandi og í síðustu viku en allar helstu verslanir landsins fluttu inn meira magn af graskerum í ár en síðustu ár. Þau seldust síðan öll upp fyrir hrekkjavökuna sjálfa, 31. október.

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir ljóst að hrekkjavakan sé búin að festa sig í sessi hér á landi og sé orðin ein stærsta hátíð ársins. Gras­kerasala hjá Krónunni jókst um 50 prósent á milli ára.

„Við vorum að selja tæplega 8.000 grasker. Við hófum sölu á þessu sirka 2017 og þá vorum við að kaupa 500 grasker. Svo hefur þetta bara vaxið ár hvert,“ segir Ásta og bætir við að Krónan þurfi klárlega að flytja inn fleiri grasker á næsta ári.

Krónan fann fyrir auknum áhuga Íslendinga á Hrekkjavökunni þetta árið

„Þetta er nefnilega orðin ein stærsta hátíð ársins. Þetta er ekki bara fyrir börnin, heldur fullorðna líka. Þetta sameinar fjölskylduna, og það er rosagleði í kringum þetta,“ segir Ásta en það voru ekki bara graskerin sem seldust vel. „Skraut, skrautgrasker, útskurðar- tól og í raun allt sem tengdist þessu seldist vel.“

Á sama tíma seldu verslanir Hagkaups rúmlega 12 tonn af graskerum í ár. Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagskaups, segir að Hagkaup hafi verið ákveðinn brautryðjandi í innflutningi á graskerum fyrir 12 árum síðan.

„Þá vorum við að flytja inn um 2 tonn á ári í kringum hrekkjavökuna. Síðustu ár hefur þessi tala svo verið að hækka og fór upp í 8 tonn árið 2019 og 10 tonn árið 2020,“ segir Sigurður en líkt og annars staðar seldust öll grasker Hagkaups upp nokkru fyrir hátíðina sjálfa.

„Það er ljóst að á næsta ári erum við að horfa á 14 til 15 tonn. Þetta er ótrúleg þróun og ljóst að þessi viðburður er búinn að stimpla sig inn svo um munar,“ segir Sigurður.

Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónuss, segir hið sama upp á teningnum hjá þeim. Hann var ekki með heildstæðar sölutölur en sagði Bónus hafa flutt inn meira af graskerum í ár en síðustu ár. „Það seldist svo allt upp hjá okkur fyrir 30. október,“ segir Baldur.