Hrekkjavakan er haldin hátíðleg víða um heim þann 31. október og má búast við ýmsum kynjaverum á ferli hér á landi þann dag og dagana í kring.

Upphaflega má rekja hrekkjavökuna til Kelta og hét hátíðin þá Samhain. Þá tíðkaðist að færa þakkir fyrir uppskeru sumarsins og bjóða veturinn velkominn.

Á ensku kallast hátíðin Halloween, sem er annar ritháttur fyrir Hallowe’en. Hallowe’en er svo stytting á nafninu All Hallows’ Evening eða All Hallows’ Eve sem er kvöldið 31. október, vakan fyrir allraheilagramessu.

Upphaflega var allraheilagramessa haldin hátíðleg 1. maí hvers árs, en árið 834 var dagsetning hennar færð yfir á 1. nóvember. Ástæðan var fyrst og fremst sú að henni var ætlað að koma í staðinn fyrir ýmsar mikilvægar heiðnar hátíðir sem haldnar voru á sama tíma.

Hefð myndaðist fyrir því að á Samhain eða Hallowe’en væri brennandi kertum komið fyrir í útskornum næpum og á Írlandi og í Skotlandi tíðkaðist að kveikja í bálköstum. Nú eru kertin tendruð í útskornum graskerum og á Íslandi hefur einnig talist til siðs víða að skera út andlit í rófur. Graskerin eru þó algengari og því ógnvænlegri sem útskornu andlitin eru því betra.

Upphaflega tíðkaðist það að kertum væri komið fyrir í útskornum næpum en nú er algengara að notast við grasker.

Þá myndaðist einnig snemma hefði fyrir því að börn, unglingar og fullorðnir klæddu sig upp í búninga og gengju á milli húsa, upphaflega til að gera húsráðendum grikk. Sú hefð hefur þróast úr því að gera einungis grikk í það að húsráðandi geti gefið búningaklæddum gestum sælgæti og sloppið þannig við grikkinn. Úr varð stærsta spurning hrekkjavökunnar: Grikk eða gott?

Hrekkjavakan hefur undanfarin ár stækkað á Íslandi. Mörgum til mikillar gleði en aðrir segja hana ameríska óþarfahefð. Við útidyr og í gluggum fleiri og fleiri húsa má þó sjá útskorin grasker á þessum tíma árs hér á landi. Þá má gera ráð fyrir að sjá hinar ýmsu furðuverur á ferli um helgina og á mánudaginn, á sjálfri hrekkjavökunni.

Í mörgum hverfum og bæjum landsins geta börn klædd í búninga gengið í hús og safnað sælgæti. Mikilvægt er að muna að til að forðast grikki er aðeins eitt ráð, gott.

Búast má við alls konar kynjaverum um allt land um helgina og á mánudaginn.
Fréttablaðið/Stefán