Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir skipulagða glæpastarfsemi starfsmannaleiga sjaldgæfa en alvarlega og telur alvarlegustu málin hreint og klárt mansal. Þetta kemur fram í sérstakri umræðu sem fór fram á Alþingi í dag um starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra. Þingmenn sammæltust um mikilvægi umræðunnar og alvarleika málsins.

Þorsteinn segir núverandi lagaramma vera of háan til þess að hægt sé að færa sönnur um mansal á Íslandi en engan vafa liggja fyrir að um mansal sé að ræða.

„Þá hefur ekki enn þá fallið dómur, svo best ég þekki, um mansal hér á landi. Þeir þröskuldar sem reistir eru í núverandi lagaramma virðast vera of háir til þess að hægt sé að færa sönnur á slíkt. Persónulega er ég ekki í nokkrum vafa um einhver af þessum alvarlegustu málum geti ekki talist sem neitt annað en hreint og klárt mansal.“

Hann segir nauðsynlegt að tryggja þurfi fjármagn til að þess að sinna eftirlitinu til að uppræta vandamálið.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir viðbrögð stjórnvalda við brotastarfsemina óviðunandi og óskaði þess að málið yrði gert að forgangsverkefni að tryggja hag erlendra starfsmanna.

„Sú mynd sem virðist blasa við er að stjórnvöld setji kíkinn fyrir blinda augað og ani áfram og viðhafi í besta falli einhverja orðræðu um að eitthvað þurfi að gera, að styrkja þurfi eitt og stuðla að öðru en svo gerist harla lítið og það sem gerist, gerist hægt.“

Umræðan kemur í kjölfar skýrslu samstarfshóps Félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Samstarfshópurinn lagði þar fram tillögu um að tryggt væri viðeigandi aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu.