Hreinsunarstarf gengur vel á Seyðisfirði en svæðið í kringum þar sem skriðan féll er enn vinnusvæði og lokað. Þá er vonast til þess að hægt verði að kynna rýmingarkort fyrir íbúum í næstu viku. Frá þessu er greint í tilkynningu frá almannavörnum en stöðufundur var haldinn í gær með lögreglu, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofu og fulltrúum Múlaþings
Vonast er til þess að vinnu verði að mestu lokið á vinnusvæðinu í kringum skriðusvæðið í mars. Þá segir að vinna við varnargarða hafi gengið vel og að þeir séu komnir saman að mestu við Búðará og með fram farveginum úr Nautaklauf. Unnið er að því að þétta þá, hækka og styrkja. Þá hefur vinna verið í gangi ofan við Botnahlíð við veituskurð og varnargarð.
Fjölga speglum
Bráðabirgðaniðurstöður hættumats Veðurstofunnar til Múlaþings er til skoðunar og segir að það gæti legið fyrir í næstu viku. Veðurstofa hefur fjölgað speglum til mælingar á hreyfingu jarðlaga í hlíðinni ofan við byggðina og freistar þess að styrkja það net enn frekar. Nokkrir speglar hafa meðal annars verið settir á stultur til þess að halda þeim upp úr snjó, rafmagn hefur verið lagt upp í Neðri-Botna til þess að knýja þar GPS-tæki og önnur mælitæki og unnið að sjálfvirkri skýrslugjöf um niðurstöður mælinga á hreyfingu jarðlaga til valinna aðila þrisvar á sólarhring. Sú upplýsingagjöf er til reynslu og undanfari þess að koma upplýsingum á vef Veðurstofu.
Þá er unnið að gerð landlíkans fyrir svæðið við Múlann og frummatsskýrslu um varnarkosti. Þar er unnið að lokafrágangi á bráðabirgðavarnargörðum og er hreinsunarstarf enn í gangi.
Með vísan til þess verður möguleg aflétting rýmingar tekin að nýju til mats í næstu viku.
Unnið er því að fullvinna rýmingarkort sem þá verður kynnt til íbúa. Útlit þess er í vinnslu og er markmiðið samkvæmt tilkynningu að auðvelda aflestur þess fyrir íbúa.
