Hreinsunar­starf gengur vel á Seyðis­firði en svæðið í kringum þar sem skriðan féll er enn vinnu­svæði og lokað. Þá er vonast til þess að hægt verði að kynna rýmingar­kort fyrir í­búum í næstu viku. Frá þessu er greint í til­kynningu frá al­manna­vörnum en stöðu­fundur var haldinn í gær með lög­reglu, al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, Veður­stofu og full­trúum Múla­þings

Vonast er til þess að vinnu verði að mestu lokið á vinnu­svæðinu í kringum skriðu­svæðið í mars. Þá segir að vinna við varnar­garða hafi gengið vel og að þeir séu komnir saman að mestu við Búðar­á og með fram far­veginum úr Nautaklauf. Unnið er að því að þétta þá, hækka og styrkja. Þá hefur vinna verið í gangi ofan við Botna­hlíð við veitu­skurð og varnar­garð.

Fjölga speglum

Bráða­birgða­niður­stöður hættu­mats Veður­stofunnar til Múla­þings er til skoðunar og segir að það gæti legið fyrir í næstu viku. Veður­stofa hefur fjölgað speglum til mælingar á hreyfingu jarð­laga í hlíðinni ofan við byggðina og freistar þess að styrkja það net enn frekar. Nokkrir speglar hafa meðal annars verið settir á stultur til þess að halda þeim upp úr snjó, raf­magn hefur verið lagt upp í Neðri-Botna til þess að knýja þar GPS-tæki og önnur mæli­tæki og unnið að sjálf­virkri skýrslu­gjöf um niður­stöður mælinga á hreyfingu jarð­laga til valinna aðila þrisvar á sólar­hring. Sú upp­lýsinga­gjöf er til reynslu og undan­fari þess að koma upp­lýsingum á vef Veður­stofu.

Þá er unnið að gerð land­líkans fyrir svæðið við Múlann og frum­mats­skýrslu um varnar­kosti. Þar er unnið að loka­frá­gangi á bráða­birgða­varnar­görðum og er hreinsunar­starf enn í gangi.

Með vísan til þess verður mögu­leg af­létting rýmingar tekin að nýju til mats í næstu viku.

Unnið er því að full­vinna rýmingar­kort sem þá verður kynnt til íbúa. Út­lit þess er í vinnslu og er mark­miðið sam­kvæmt til­kynningu að auð­velda af­lestur þess fyrir íbúa.

Stefnt er að því að ljúka hreinsun á vinnusvæði í mars.
Ljósmynd/Almannavarnir