Örlygur Sigurjónsson byrjaði að plokka plast úr fjörum á höfuðborgarsvæðinu sumarið 2017 eftir að hann sá í kajakferðum sínum hversu mikið plast safnast saman við strandlengjuna á höfuðborgarsvæðinu.

„Það var aðallega vegna þess að það fór í taugarnar á mér að strendurnar í nágrenni við Geldinganes voru plastmettaðar. Þetta eru þau svæði sem að ég og félagar mínir í kajakklúbbnum eru að róa á og ég ákvað að stökkva í land í einum róðrinum og fylla einn bónuspoka af rusli. Svo sá auðvitað að þetta var miklu meira þannig ég setti mér markmið að hreinsa ákveðin part af strandlengju í nágrenni við Geldinganes,“ segir Örlygur í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir það hafi fljótt undið upp á sig og hann hafi séð að þörfin hafi verið miklu meiri en hann gerði upprunalega ráð fyrir.

„Ég setti mér þá það markmið að ná tíu góðum ferðum á kajak og þá fór ég að sjá árangur, en ekki fyrr en þá,“ segir Örlygur.

Hreinsuðu 200 kíló af plasti á Snæfellsnesi

Hann segir að þá hafi hann verið kominn með brennandi áhuga og þá hafi verið erfitt að hætta. Hann hafi í kjölfarið kynnst „plokk-samfélaginu“ á Íslandi og hafi farið að plokka á landi líka. Hann fann ýmis svæði sem höfðu ekki verið hreinsuð lengi, eða jafnvel aldrei. Hann hafi sem dæmi verið leiðsögumaður á Snæfellsnesi í sumar og hafi farið í sínum frítíma niður í fjöru að plokka þar sem hann hafi oft á tíðum fundið margt útgerðatengt rusl.

„Við söfnuðum 200 kílóum af plasti í fjörunni í nágrenni við Sölvahamars og Hellna. Þetta segir manni að útgerðarmenn mættu vera passasamari með það hvað er að hverfa frá þeim,“ segir Örlygur.

Myndbandið hér að neðan er tekið þegar Örlygur var við hreinsun á Snæfellsnesi í sumar. 

Útgerðarmenn mættu passa hvað hverfur frá þeim

Hann segir að samhliða plokkinu á landi hafi hann þó alltaf haldið áfram að plokka og hreinsa á kajaknum og segir frá því að nýlega hafi Kajakklúbburinn plokkað heilt tonn af rusli í sérstöku umhverfisátaki við strandlengjuna á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta eru netadræsur, kaðladræsur, plastumbúðir og annars konar plastúrgangur. Neysluvarningur sem hefur fokið út í sjó,“ segir Örlygur.

Hafa einstaka sýn og getu á kajaknum

Hann segir að í heildina sé þetta líklega um sjö til tíu kílómetrar af strandlengju og að þeir fari einu sinni í viku, sama hvort sé sumar eða vetur. Það er þá svæðið í kringum Geldinganes og Grafarvoginn, Leirvoginn og nánasta svæði. Hann segir að þau miðli ávallt sinni vitneskju til Landverndar og hreinsi eins og þau geti.

„Við höfum einstaka sýn á þessi svæði og sjáum hvar plast rekur upp á fjöruna á eyjunum á sundunum og víðar. Á kajak hefurðu einstaka getu til að hreinsa þetta líka. Þetta er óaðgengilegt frá landi því þetta eru oft sæbrattar og klettóttar fjörur sem erfitt er að klífa að ofan,“ segir Örlygur.

Hann segir að það sé því oft einfaldara að leggja bátnum og labba í fjöruna en segi þó að maður þurfi að kunna að fóta sig í grjótinu í fjörunni og þetta geti verið varasamt.

Örlygur er duglegur að birta myndir af árangrinum inn í hópinn Plokkarar Íslands og segir að það sé alltaf hvetjandi að sjá myndir frá öðrum.

„Það munar um hvert einasta snitti sem að dregið er að landi og bjargað úr fjöru vegna þess að plastmengun í fjöru og í hafi er vágestur,“ segir Örlygur að lokum.