Hreindýrskálfur hefur haldið til í hestahópi á Þorvaldsstöðum í Skriðdal undanfarna mánuði. Þetta kemur fram á austfirska fréttavefnum Austurfrétt.

„Það fylgir eftir hestunum, leikur sér með þeim og kúrir sig niður með þeim í vondum veðrum,“ segir Andri Fannar Traustason í samtali við Austurfrétt, en hann býr á Þorvaldsstöðum þar sem kálfurinn hefur haldið til. Hann segir dýrið hafa komið í Þorvaldsstaði í desember í fyrra og hafi þar áður verið á Lynghól, bæ utar í Skriðdal.

Andri Fannar segir kálfinn halda sig í 10-15 metra fjarlægð þegar hann gefi hestunum að borða. Kálfurinn hræðist aðra sem eru ekki í fjölskyldunni og láti sig hverfa.

„Það hefur ekki sýnt á sér neitt fararsnið, ef aðrir koma en úr fjölskyldunni lætur það sig hverfa á meðan en kemur svo aftur,“ segir Andri Fannar og bætir við að hann hafi ekki gefið kálfinum nafn.

Hreindýr halda sig í hjörðum sem eru misstórar eftir árstíma. Fullorðnir tarfar geta hins vegar verið einfarar þar til að fengitíma kemur en þá sameinast þeir hjörðunum. Því þykir það óvenjulegt að hreindýrskálfur skuli halda til í hestahópi.

Náttúra Austurlands hentar hreindýrum mjög vel. Kjörsvæði þeirra þar er á hálendinu norðan og norðaustan við Vatnajökul og á Austfjörðum.

Hægt er að sjá mynd af hreindýrskálfinum í hópi hestanna á vefsíðu Austurfrétta.