Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir morðið á Armando Beqirai hafa verið hrein og klár aftaka. Hún fer fram á að hin ákærðu, Angjelin Sterkaj, Claudia Sofia Coelho Carvahlo, Murat Selivrada, og Shpetim Qerimi, verði dæmd sek en hún segir að um samverknað hafi verið að ræða. Farið er fram á 16 til 20 ára fangelsisdóm yfir Angjelin og ekki minna en 5 ár fyrir hin, fer það eftir hvort þau verði dæmd fyrir samverknað eða hlutdeild.

„Ákærðu stóðu öll fjögur saman við svipta Armando Beqirai lífi,“ sagði Kolbrún í morgun en hún ítrekar að þó að Angjelin hafi mundað morðvopnið hafi þau öll tekið þátt og skipt með sér verkum. Þáttur hvers og eins var nauðsynlegur til að framkvæmdin myndi ganga upp. Ásetningur hafi verið mjög mikill og morðið skipulagt.

Málflutningur í Rauðagerðismálinu stendur yfir í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur en þar flytja sækjendur og verjendur sitt lokamál fyrir dómi. Skýrslutökum af vitnum lauk í síðustu viku en í heildina gáfu fjörutíu vitni skýrslu fyrir dómi á fjórum dögum.

„Hér erum við bara að tala um skipulagt morð þar sem ákærði fer á heimili mannsins til að svipta hann lífi.“

„Mat ákæruvaldsins að þarna hafi átt sér stað hrein og klár aftaka.“

Angjelin Sterkaj.
Fréttablaðið/Anton Brink

Skipulagður atburður

Kolbrún fór fyrst yfir mál Angjelin sem skaut Armando til bana, en hún segir það skipta máli undir hvaða kringumstæðum hann játaði á sig morðið — ekki fyrr en 19. mars eftir að lögregla var búin að kynna fyrir honum ítarleg gögn, meðal annars morðvopnið. Játningin hafi að hennar mati lítið vægi.

„Þegar maður skoðar þetta mál í heild sinni er ýmislegt sem bendir til að þessi atburður hafi verið ansi vel skipulagður,“ sagði Kolbrún snemma í málflutningi sínum í morgun. Hún segir vitnaskýrslur og sönnunargögn benda til þess að Angjelin, sem borið fyrir sig sjálfsvörn, hafi gert ýmsar ráðstafanir til að ná Armando einum.

Fyrst var gistingin í bústaðnum á Norðurlandi, fundurinn í Borgarnesi og sú staðreynd að hann hafi skilið síma sinn og úr eftir þegar hann fór afsíðis til að ræða um mál Armando við Shpetim. Hann virðist hafa ákveðið fyrirfram að fara aftur norður strax um kvöldið eftir að hann fór til Reykjavíkur til að hitta Armando en laugardagskvöldið, þegar Armando var myrtur, hafi Angjelin beðið um að hafa bústaðinn í eina nótt í viðbót. Hann var búinn að gera ráðstafanir með ferðirnar í bæinn og til baka og lét fylgjast með ferðum hans umrætt kvöld.

Úr dómsal 101 í morgun.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Hann gerir miklar ráðstafanir til að hitta Armando einan. Hinn ákærði Angjelin situr í rauninni fyrir Armando og fer vopnaður á staðinn. Hann fer á staðinn með skammbyssu og hljóðdeyfi og er búinn að skrúfa á hljóðdeyfinn áður en hann tekur upp byssuna,“ sagði Kolbrún og benti á að upptökurnar í Rauðagerði sýni vel áður að allt sé yfirstaðið á innan við mínútu.

Varðandi vörn Angjelin, um að hann hafi skotið Armando í sjálfsvörn og að Armando hafi verið með haglabyssu í bílskúrnum, segir Kolbrún að Armando hefði ekki haft tækifæri til þess og ekkert hafi bent til þess að hann hafi verið vopnaður. Á þessum 57 sekúndum hafi Angjelin skotið Armando níu sinnum, flest skotin fóru inn um vinstri hlið líkamans og tvö skot virtust vera í bak hins látna. Tekur hún fram að samkvæmt vitnum sem bjuggu á neðri hæð hússins, hafi ekki komið til átaka á milli þeirra. Það hafi einungis heyrst hvellur þegar Armando féll.

„Ef það hefðu verið átök eins og Angjelin lýsti þá hefðu þeir heyrt það. Mat ákæruvaldsins að þarna hafi átt sér stað hrein og klár aftaka.“

„Það vissu allir að þarna var eitthvað í gangi sem þoldi ekki dagsljósið.“

„Við erum ekki í þannig samfélagi“

Angjelin greindi frá í skýrslutöku sinni í síðustu viku að hann hafi verið hræddur um líf sitt. Honum hafi verið hótað af Armando og vinum hans fyrr á árinu en hann sagði spjótin hafa beinst að sér eftir að hann neitaði að hjálpa Armando við að innheimta sekt frá Antoni Kristni Þórarinssyni, eða Tona eins og hann er kallaður. Um hafi verið að ræða 50 milljóna króna sekt.

Kolbrún sagði samkvæmt vitnum hafi að vísu verið deilur milli aðilanna en það afsaki ekki þessar gjörðir, sérstaklega í ljósi þess að búið var að skipuleggja sáttafund á mánudeginum.

„Af hverju lá þá svona á að fara þessa vegferð á laugardeginum? Var það því að Angjelin hafi ekki viljað hittast á mánudeginum? Var hann kannski hræddur við að þessi fundur færi fram?“ sagði Kolbrún. Varðandi líflátshótanirnar sem Angjelin talaði um sagði hún:

„Það er erfitt að bera kennsl á hvern nákvæmlega þessar hótanir beindust að. Mönnum ber ekki saman um það hversu alvarlega á að taka þessu en það bendir ekki til að ákærði hafi staðið frammi fyrir yfirvofandi árás ... Hann hafði önnur úrræði og hefði auðvitað átt að leita til lögreglu. Við erum ekki í þannig samfélagi að menn fara vopnaðir og skjóta annan mann níu sinnum til bana, það er bara ekki þannig.“

Claudia ekki eins alsaklaus og hún heldur fram

Varðandi Claudiu bendir Kolbrún á að hún hafi fylgst með tveimur bílum og sent skilaboð. Fyrir dómi útskýrði hún þátt sinn og hver þáttur Murat var í þessu.

„Þegar maður skoðar hvað hún vissi eða mátti vita, í fyrsta lagi þessa ferð upp í Borgarnes, þarf ekkert annað en að horfa á bút þessara samskipta. Þetta gerist með mjög skipulögðum og fumlausum hætti.“

Claudia var sú sem tók við símunum og úri Angjelin þegar hann fór afsíðis til að tala um málið við Shpetim. Hún var einnig sú sem flutti morðvopnið í tösku til Reykjavíkur.

„Það vissu allir að þarna var eitthvað í gangi sem þoldi ekki dagsljósið. Hún vissi að Angjelin ætti byssu og í Borgarnesi tekur hún við tösku,“ sagði Kolbrún.

Samkvæmt lögregluskýrslu hafi hún og Shpetim vitað fullvel hvað væri í töskunni. Hún hafi vitað af deilunum og heyrt hótanirnar og gat henni því ekki dulist hvers konar verkefni hún væri að taka að sér. Hún hafi farið um miðja nótt í Varmahlíð og sent leiðbeiningar á annan aðila um hvert hann ætti að fara með bílinn og skilja hann eftir.

Á þriðjudeginum skilar hún bílaleigubílnum sem var notaður sem flóttabíll eftir manndrápið og reynir að fela sig fyrir lögreglu. Claudia sagði í skýrslutöku í síðustu viku að hún hafi verið hrædd og hafi hvorki vitað að byssan væri í töskunni né að Angjelin hafi ætlað að skjóta Armando.

„Ef það var raunverulega þannig að Claudia flæktist inn í þetta algjörlega óvitandi, algjörlega saklaus, af hverju tók hún þá þátt? Af hverju sagði hún það ekki við lögreglu? Hún lýgur, hún segir ósátt frá ... Bendir ekki til að hún sé eins alsaklaus eins og hún heldur fram og þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hvað hún vissi um það sem raunverulega átti sér stað.“

Claudia Sofia Coelho Carvahlo í dómsalnum í morgun.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Hann virðist vera í miðju átakanna . Virðist vita vel hvað var þarna í gangi.“

Virðist vera í miðju átakanna

Murat hefur alfarið neitað sök en hann er sakaður um að hafa sýnt Claudiu tvo bíla í eigu Armando. Kolbrún segir að Murat hafi breytt framburði sínum ítrekað í gegnum rannsókn málsins. Hann hafi bæði verið með hinum ákærðu þetta kvöld og verið í stöðugu sambandi við þau í gegnum síma.

„Í fyrstu skýrslu sagðist hann ekki hafa hitt einn einasta mann. Kannaðist ekki við Armando og Dennis og þekkti ekki Claudiu.“

Bæði Claudia og Angjelin hafa þó sagt að Murat hafi aðeins sýnt Claudiu einn bíl í eigu Armando. Angjelin hafi aftur á móti sagt henni frá seinni bílnum og gefið henni fyrirmælin en þau stóðu við það að Murat hafi sýnt Claudiu fyrri bílinn. Fyrir dómi sagðist Murat ekki hafa sýnt Claudiu fyrri bílinn en það gæti verið að Claudia hafi spurt þegar þau voru á staðnum.

„Murat segir fyrir dómi að hann hafi verið þarna í portinu til að kaupa fíkniefni. Aldrei nefndi Murat þetta við lögreglu.“

Kolbrún fór ítarlega yfir tímalínuna þetta kvöld og símtöl aðilanna og telur að Murat hafi vitað vel hvað átti að gerast þetta kvöld.

„Hann virðist vera í miðju átakanna . Virðist vita vel hvað var þarna í gangi.“

Murat.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Það er ekki fyrr en það er búiið að reka hann út í horn sem hann breytir framburði sínum.“

Shpetim hafi vitað hvað stóð til

Varðandi Shpetim segir Kolbrún að framburður hans hafi verið ótrúverðugur. Shpetim var bílstjórinn sem ók með Angjelin að heimili Armandovið Rauðagerði, en hann sagðist hafa verið fullur þennan dag og hafa lítið munað þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi. Við skýrslutöku hjá lögreglu eftir morðið sagðist Shpetim þó hafa fylgst vel með aðstæðum í Rauðagerði.

„Að hann hafi ekki áttað sig á að þetta væri hús Armando er bara fáránlegt. Angjelin hafði sagt við Shpetim að hann vildi ræða við Armando svo var fundurinn á Borgarnesi þar sem þau taka við byssunni.“

Shpetim hafi sagt við annan mann að Angjelin væri kominn í bæinn til að klára verkið sem hafi verið rætt í Borgarnesi. Eins hafi verið ómögulegt að Shpetim hafi ekki séð byssuna þegar hann keyrði burt af vettvangi með Angjelin, enda hafi hún verið meira en 40 sentímetrar á lengd með hljóðdeyfinum á.

„Hann segir ósátt frá í sínum skýrslum hjá lögreglu og það er ekki fyrr en það er búiið að reka hann út í horn sem hann breytir framburði sínum,“ sagði Kolbrún og bendir á að hann hafi einnig keyrt norður þessa nótt og farið aftur í bæinn eftir að hafa skipt um bíl við Claudiu.

Shpetim.
Fréttablaðið/Anton Brink