Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru í Landsrétti sakfelldir fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum í CLN málinu svokallaða. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, hefur verið sýknaður.

Málið hefur farið fram og til baka í dómskerfinu og snýr að því að Stjórnendur Kaupþings voru ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa lánað 508 milljónir evra, frá ágúst og fram í október árið 2008, til tveggja félaga sem keyptu lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche bank. Þau skuldabréf voru tengd skuldatryggingaálagi (e. credit linked note) Kaupþings. Málið er þekkt sem síðasta hrunmálið sem rekið er fyrir dómstólum.

Ekki dæmdir í fangelsi

Brot Hreiðars Más og Magnúsar snerust um gífurlega háar fjárhæðir en samtals námu lánin sem um ræddi í ákæru á áttunda tug milljarða króna. „Fól háttsemi ákærðu í sér alvarleg trúnaðarbrot gagnvart stóru hlutafélagi, skráðu á markaði, sem framin voru af ásetningi og leiddu til stórfellds fjártjóns,“ segir í dómi Landsréttar en þar er bent á að verulegur hluti þess fjármagns sem stefnt var í hættu með lánveitingunum hefur fengist endurgreiddur á grundvelli samkomulags sem Kaupþing ehf. gerði við Deutsche Bank í desember 2016. 266

Í ljósi þess að mennirnir voru báðir dæmdir í fangelsi með dómi Hæstaréttar árið 2015 og 2016 og vegna þess að þrettán ár eru liðin frá atviku málsins verði þeim ekki gerð frekari refsing.

Fram og til baka í dómskerfinu

Málið hefur í raun farið fram og aftur í dómskerfinu í nokkur ár. Fyrst var málið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur sem sýknaði hina ákærðu. Málinu var þá áfrýjað til Hæstaréttar en áður en það var tekið fyrir komu fram upplýsingar um að Deutsche bank hefði greitt þrotabúi Kaupþings stóran hluta upphæðarinnar, 425 milljónir evra. Hæstiréttur ógilti því dóm héraðsdóms og fór fram á að málið yrði rannsakað betur þar.

Málið gekk þá aftur til héraðsdóms sem vísaði málinu frá á þeim grundvelli að ákæruvaldið hefði ekki rannsakað sem skyldi þau atriði sem Hæstiréttur taldi að þyrfti að rannsaka. Ákæruvaldið kærði þá niðurstöðu til Landsréttar sem úrskurðaði svo að héraðsdómi bæri að taka málið fyrir efnislega.

Það gerði héraðsdómur þá og komst að þeirri niðurstöðu að Hreiðar, Sigurður og Magnús væru saklausir í málinu. Í kjölfarið var málinu skotið til Landsréttar sem hefur nú sakfellt Hreiðar og Magnús en sýknað Sigurð.