Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Veritas, hefur ákveðið að stíga til hliðar úr stjórn fyrirtækisins og stjórnum tengdra fyrirtækja, í kjölfar ásakana Vítalíu Lazareva.
Hreggviður er einn þeirra fjögurra manna sem Vítalía hefur nafngreint í tengslum við málið og varðar atvik sem átti sér stað í sumarbústaðarferð. Fyrr í dag var greint frá því að Ari Edwald, framkvæmdastjóri Ísey útflutnings, væri kominn í leyfi frá störfum vegna málsins.
Lögmaður Hreggviðs, Eva B. Helgadóttir, sendi frá sér yfirlýsingu nú á þriðja tímanum fyrir hönd umbjóðanda síns.
„Ég harma að hafa ekki stigið út úr aðstæðum sem ung kona hefur skýrt frá og fjallað hefur verið um í sumum fjölmiðlum. Það er afar þungbært að heyra um hennar reynslu. Ég lít þetta mál alvarlegum augum og þrátt fyrir að ég hafi ekki gerst brotlegur við lög þá mun ég stíga til hliðar úr stjórn Veritas og stjórnum tengdra fyrirtækja til að raska ekki þeirra mikilvægu starfsemi.“
Atvikið í umræddum sumarbústað átti sér stað í desember 2020 en Vítalía var í sambandi með einum mannanna, þekktum manni sem starfar sem einkaþjálfari. Í hlaðvarpsþættinum Eigin konur með Eddu Falak lýsti Vítalía atvikinu meðal annars með þessum orðum:
„Þetta fór alveg yfir öll mörk sem hægt var að fara yfir. Fólk áttar sig ekki á því hversu stórt þetta var, margir halda að þetta hafi verið „bara“ þukl en þetta fór yfir öll mörk hjá öllum.“
Eins og greint var frá fyrr í dag er Ari Edwald, einn fjórmenninganna, kominn í leyfi frá störfum en hann óskaði sjálfur eftir því, að því er fram kom í frétt Stundarinnar. Haft var eftir Elínu Margréti Stefánsdóttur, stjórnarformanni Ísey, að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða en framhaldið myndi ráðast á næstunni.