Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum á Vatnsleysuströnd, segir vegna eldgossins í Meradölum að ef hraunið færi að renna til norðurs í miklum mæli gæti þurft að bregðast við því. Ekki séu þó miklar líkur á að hraunflæðið ógni byggð í Vogum.

Jarðfræðingar hafa verið varfærnir í spám um framvindu hraunflæðis ef gosið dregst á langinn.

„Í augnablikinu er þetta á rólegum nótum en ef framleiðnin á hrauninu dregst á langinn og sprungan leitar til norðurs gætu orðið áhrif á okkur,“ sagði Ásgeir þegar Fréttablaðið leitaði viðbragða hans fyrr í vikunni.

Grindvíkingar fögnuðu þegar eldgosið braust út, að jarðskjálftum væri lokið í bili. Ásgeir tekur undir það, því hætta á miklum skjálftum er minni eftir kvikulosunina. Þá segir Ásgeir eldsprunguna sumpart á góðum stað, á miðjum skaganum, þar sem engir innviðir séu fyrir hendi.

„Mesta hættan er að sprungan leiti meira í norður.“

Ásgeir telur að það myndi í öllu falli taka einhverja mánuði fyrir hraunið að ógna byggð í Vogum.

„En við horfum líka til þess að vísindamenn segja að Reykjanes­eldar séu hafnir og taki 200–300 ár að jafnaði. Það er erfitt að spá fyrir um hvernig þetta þróast,“ segir Ásgeir.

Alls búa um 1.400 manns í Vogum.