Í gær­kvöldi sáust engin merki um hreyfingu á hraun­jaðrinum í Mera­dölum, sem er mögu­lega orðinn ó­virkur og gæti færst annað. Kemur þetta fram í færslu frá Eld­fjalla-og náttúru­vá­r­hóps Suður­lands.

„Á þriðju­dag (9. ágúst) um klukkan 16 var hraun­jaðarinn ofan á gamla hrauninu, um 150 metra frá skarðinu. Þá hafði hellu­hraun runnið með fram hraun­kantinum (milli hrauns og hlíðar) til suðurs. Í gær­morgun var hraun­jaðarinn hins vegar búinn að renna að skarðinu og ryðja upp hluta hellu­hraunsins. Nú er yfir­borð hraunsins í u.þ.b. sömu hæð og skarðið,“ segir í færslu frá hópnum.

Þá eru mögu­leiki á að hraun­jaðar sé orðinn ó­virkur. „Hins vegar sáust engin merki um hreyfingu á hraun­jaðrinum í gær­kvöldi. Mögu­leiki er á að sá hraun­jaðar sé orðinn ó­virkur og virknin færst annað. Ef svo er þá hefur myndast þarna myndar­leg hraun­breiða sem gæti beint hrauninu til norðurs eða suðurs í Mera­dölum sjálfum og þannig tafið hraun­rennsli út um skarðið sjálft.“

Hraunið úr eld­gosinu hefur nú runnið um 1.7 kíló­metra frá gos­stöðvunum að skarðinu. „Ef hraun rennur út um skarðið mun það renna út og til suðurs yfir nokkuð flat­lent svæði. Þar eru um 4,3 km niður að Suður­stranda­vegi og um 5,5 km að sjó. Þess má geta að hraunið rann lengst um 3,5 km í gosinu í fyrra,“ segir í færslunni.