„Það er bara komið eldgos. Þetta er kannski tvisvar sinnum meira en síðast, sem getur nú varla talist mjög mikið,“ sagði Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í gærkvöldi um nýja eldgosið sem hófst í vestanverðum Meradölum í gær.

Eftir öfluga jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaganum síðustu daga braust hraun upp yfirborðið við gossvæðið frá í fyrra um klukkan hálf tvö í gær. Á fundi Almannavarna í gær kom fram að áætlað sé að hraunflæðið nú sé á bilinu fimm til tíu sinnum meira en í gosinu sem hófst í mars í fyrra.

„Ef þetta heldur áfram sem horfir þá fyllist dalurinn í nótt. Þá lekur þetta líklegast niður í Meradali eða mögulega hérna norður fyrir. Mestar líkur eru á Meradölum,“ útskýrði Ármann spurður um hvert hraunið muni leita. Hann sagði innviðum ekki vera ógnað – ekki í bili að minnsta kosti. „Nei, ekki nema þetta haldi áfram í einhverja mánuði,“ svaraði eldfjallafræðingurinn sem kvað ekkert hægt að segja til um hversu lengi gosið muni standa.

Grindvíkingar fögnuðu nýja gosinu innilega því fari á sömu lund og í fyrra hættir jörð nú að skjálfa. Dijana Una Jankovic, starfsmaður á bæjarskrifstofunum, fór strax í bakarí þegar fréttirnar bárust.

„Ég er svo hrædd við jarðskjálfta og þegar ég heyrði fréttirnar um að gos væri byrjað fór ég og keypti köku fyrir starfsfólkið hér á bæjarskrifstofunni,“ segir Dijana.

Þótt gosið ógni ekki innviðum að svo stöddu er það líklega aðeins stakur atburður í aldalangri umbrotahrinu sem nú er hafin á Reykjanesskaganum.

Sérfræðingur í áhættugreiningu telur að háspennulínurnar á Reykjanesi séu í mun meiri hættu á að verða hrauni að bráð en Reykjanesbrautin. Hann telur heppilegast að leggja sæstreng milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur til að tryggja raforkuflutning til Reykjaness.