Ekki verður farið í neinar fram­kvæmdir til að koma í veg fyrir að hraun úr Geldinga­dölum flæði yfir Suður­standar­veg heldur verið ein­blínt á að verja Grinda­víkur­bæ og vegi þar í kring, sam­kvæmt til­kynningu frá al­manna­vörnum ríkis­lög­reglu­stjóra.

Á næstu dögum mun hraun skríða fram úr Nátt­haga yfir Suður­strandar­veg og í átt til sjávar. Al­manna­varnir funduðu í dag með byggingar­verk­fræðingum Verkíss.

Fjögurra metra hár og 200 metra langur varnar­veggur er það eina sem stendur í vegi fyrir að hraunið renni niður í Nátt­haga­krika en þaðan er greið leið til norðurs, vesturs og suðurs að Suður­strandar­vegi, Grinda­vík, Svarts­engi og Grinda­víkur­vegi.

„Engir mikil­vægir inn­viðir eru beint við gos­stöðvarnar sjálfar en Suður­stranda­vegur og ljós­leiðari eru sunnan við gos­stöðvarnar. Ljóst var að þeir inn­viðir gætu verið í hættu ef gosið héldi á­fram. Vegna þessa var gripið til mót­vægis­að­gerða með því að setja upp varnar­vegg ofan við Nátt­haga,“ segir í til­kynningu.

„Sú að­gerð fólst í því að tefja fram­gang hraunsins og seinka því að það kæmist að Suður­strandar­vegi. Á þeim tíma jókst hraun­flæðið frá gosinu um 100% og mikið magn af hrauni kom að görðunum. Viku síðar fór hraun að renna yfir vestari garðinn og nokkru síðar þann eystri. Þrátt fyrir það standa báðir garðarnir enn og er það merki um að sú hönnun virki vel við þessar að­stæður,“ segir þar enn fremur.

Nú­verandi hættu­mat gerir ráð fyrir því að um lang­tíma­at­burð sé að ræða og að gosið muni halda á­fram í mánuði eða ár.

„Miðað við það er ljóst að enn fleiri inn­viðir geta verið í hættu. Er þá sér­stak­lega verið að horfa til svæðisins út frá Nátt­haga­krika. Hermanir gefa til kynna að þaðan geti verið leið fyrir hraunið til norðurs, vesturs og suðurs.“

Hér má sjá beygjuna í hrauntungunni sem rennur ofan í Nátthaga frá suðvesturhluta Geldingadala.
Fréttablaðið/Almannavarnir

Frekari varnar­garðar hafa verið til skoðunar í Nátt­haga og hefur þá verið horft til þess að safna upp hrauni í dalnum og veita því á­kveðna leið til sjávar.

Tölu­vert stór mann­virki þyrfti til þess að ná árangri og ljóst að það mun bara halda í á­kveðin tíma. Miðað við um­fang fram­kvæmda og ó­vissu um árangur var á­kveðið að að­hafast ekki frekar á þessu svæði. Á­herslur varðandi frekar mót­vægis­að­gerðir munu því beinast að Nátt­haga­krika.

„Nú þegar hefur verið reistur leiði­garður sunnan við Geldinga­dali í þeim til­gangi að bæja hraun­rennsli frá Nátt­haga­krika. Á sama tíma verður farið í að skoða út­færslur varðandi frekari mót­vægis­að­gerðir vegna mikil­vægra inn­viða sem geta verið í hættu.“