Hraunið úr eld­gosinu í Mera­dölum stefnir nú í átt að Suður­stranda­vegi. Þetta er niðurstaða Magnúsar Tuma Guð­munds­sonar, eld­fjalla­fræðings og rannsóknarhóps á vegum Eldfjallafræði og náttúruvárhóps Háskóla Íslands en hraunið mun renna til suðurs í átt að veginum komist það upp úr Mera­dölum

„Hraunið er á leið til suðurs,“ segir Magnús Tumi en erfitt sé að segja hve­nær hraunið fer upp í dalnum „Ég veit það ekki ná­kvæm­lega, en þetta er búið að hækka um sjö til átta metra á síðustu tveim sólar­hringum,“ segir Magnús og bætir við „Ef þetta heldur á­fram svona þá fer að flæða þarna yfir núna á næstu klukku­tímum eða á næsta sólar­hring.“

Hraunið hefur vaxið mikið síðustu daga en hér má sjá samanburð frá 7. ágúst fram til dagsins í dag.
Mynd/JarðvísindastofnunHÍ

Eld­fjalla­fræði og náttúru­vá­r­hópur Há­skóla Ís­lands birti í dag til­kynningu um mælingar sem fóru fram ná­lægt gosinu en niður­stöður þeirra voru að hraunið ætti einungis eftir um 1 metra áður en það tæki að flæða úr dölunum. Hópurinn tekur í sama streng og Magnús Tumi á face­book síðu sinni og bendir á að hraunið muni flæða um Ein­hlíðar­sand á veg­ferð sinni að veginum.

Myndin sýnir muninn á hrauninu frá því á föstudaginn 5. ágúst fram til dagsins í dag.
Mynd/JarðvísindastofnunHÍ

Magnús tekur fram að farið verði í flug­mælingar á morgun ef veður leyfir „Það er mjög mikil­vægt að við náum því“ segir Magnús Tumi og að at­burða­rásin undan­farið hafi verið ansi hröð.

Verið sé nú að reikna hversu mikið flæði þurfi til áður en hraunið flæði í gegnum Ein­hlíðar­sand og að veginum.