Hraunið í eldgosinu í Meradölum virðist hafa breytt um stefnu og rennur nú til norðurs. Samkvæmt upplýsingu frá Sigríði Kristjánsdóttur náttúruvársérfræðingi hjá Veðurstofunni er það skárra en að hraunið renni til suðurs því þá gæti það farið yfir skarð í Eystri-Meradölum en þar eru aðeins um fjórir kílómetrar að Suðurstrandarveginum. Til norðurs er aðeins að finna gönguslóða .

„Hraunflæðið er nokkuð stöðugt. Það gýst mest úr einum gíg en það virðist breytilegt hvert hraunið fer. Það var að fara suðaustur og í áttina að skarðinu, en síðan í gær hefur það flætt meira til norðurs,“ segir Sigríður.

Hún segir líklegt að þótt svo að hraunið renni til norðurs þá muni það líklega renna aftur í áttina að skarðinu og á endanum yfir það, en að það muni taka langan tíma.

Sigríður segir að vel sé fylgst með þróun gossins og þá sérstaklega hvar ný gosop gætu opnast.

„Það gæti gerst eins og í gosinu í fyrra og virknin færst til en við erum með nokkuð góðar hugmyndir um hvar það gæti gerst. Helst á hættusvæðinu fyrir norðan þar sem gýs núna,“ segir Sigríður.

Opið er að gosstöðvunum í dag og er hægt að fá nánari upplýsingar um aðgengi og færð á vef Safetravel hér.

Í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum kemur fram að allt hafi 4.697  farið um gossvæðið í gær og að helst hafi borið til tíðinda í nótt þegar 13 manna gönguhópur villtist af gönguleið A þrátt fyrir að búið sé að stika hana. Þeim, ásamt öðrum fimm manna gönguhópi, var vísað inn á rétta leið.

Í samræmi við ákvörðun lögreglustjórans er börnum yngri en 12 ára snúið frá gönguleið A vegna öryggis þeirra. Foreldrum ungra barna er bent á auðvelda leið inn í Nátthaga þar sem skoða má hraunið sem rann í gosinu í fyrra.  Þaðan sést ekki til gossins inn í Meradölum