Á næstu dögum mun hraun skríða fram úr Nátthaga yfir Suðurstrandarveg og í átt til sjávar. Almannavarnir funda klukkan 13 í dag með byggingaverkfræðingum Verkíss.

Fjögurra metra hár og 200 metra langur varnarveggur er það eina sem stendur í vegi fyrir að hraunið renni niður í Nátthagakrika en þaðan er greið leið til norðurs, vesturs og suðurs að Suðurstrandarvegi, Grindavík, Svartsengi og Grindavíkurvegi.

Rautt: Kvikan í dag. Grænt: Varnargarðurinn. Fjólubláu línurnar: Mögulegar leiðir hraunsins. Hætta er á að það byggist upp í beygjunni niður í Nátthaga og flæði ofan í Nátthagakrika. Einnig liggur leið kvikunnar í Nátthaga í átt að Suðurstrandarveg.
Fréttablaðið

Fyrsti áfangi varnarveggsins stendur á hæðinni og beinir flæðinu niður í Nátthaga. Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís segir að ákvörðun verði tekin síðar í dag hvort þurfi að styrkja eða hækka varnarvegginn.

„Við fylgjumst með flæðinu og erum tilbúin að fylla í öll skörð ef þörf krefur,“ segir Ari í samtali við Fréttablaðið. Hann segir ljóst að hraunið muni flæða úr Nátthaga á næstu dögum. Líkt og má sjá á kortinu hér fyrir ofan gæti hraunið farið til Grindavíkur renni það óhindrað úr suðvesturhluta Nátthaga eða Nátthagakrika.

Hér má sjá beygjuna í hrauntungunni sem rennur ofan í Nátthaga frá suðvesturhluta Geldingadala.
Fréttablaðið/Almannavarnir
Hrauntunga flæðir úr vesturhluta Geldingadala niður í Nátthaga á miklum hraða.
Fréttablaðið/Anton Brink