Hraun flæddi í gærkvöldi yfir gönguleið C í átt að Suðurstrandarvegi og suðvestur bílastæðinu.

Roman Zach, íbúí í Þorlákshöfn, tók myndband frá Borgarfjalli sem sýnir hvernig hraunið rennur nú úr vesturhluta Nátthaga og fylgir nú gönguleiðinni sem var tekin í notkun eftir að hraunið flæddi yfir gönguleið A milli Geldingadala og Nátthaga. Hægt er að sjá myndböndin neðar í fréttinni.

Hraunið fylgir gönguleið c.
Mynd: Skjáskot úr myndbandi
Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins, tók þessa mynd síðdegis í gær. Ísólfsskáli sést hér skammt undan hrauninu sem rennur nú úr Geldingadölum og niður í Nátthaga.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra fundar reglulega um stöðu mála, þar á meðal bílastæðamálin.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að svæðið milli Slaga og Suðurstrandarveg sé til skoðunar fyrir nýtt bílastæði.

„Við erum að skoða bílastæðamálin fyrir gönguleið C og það er túnbleðill nálægt Nátthaga sem kemur til greina,“ segir Rögnvaldur í samtali við Fréttablaðið.

Þegar hraunið flæðir yfir veginn verða göngumenn að koma úr austri til að geta lagt við nýja stæðið þegar það er tilbúið.

Græni hringurinn sýnir svæði sem gæti nýst fyrir nýtt bílastæði þegar það flæðir yfir bílastæðið sem er nú í notkun.
Mynd: Gro Birkefeldt Moller Pedersen. Fréttablaðið bætti við græna hringnum.