Hefur örnefnið Fagradalshraun, sem lagt var til við ráðherra á grundvelli laga um örnefni, verið staðfest af ráðherra.

Um 350 tillögur að nafni á hraunið bárust í örnefnasamkeppni sem sveitarfélagið stóð fyrir í byrjun apríl. Í kjölfarið var ákveðið að senda tvær nafnatillögur til örnefnanefndar til umsagnar, Fagradalshraun og Fagrahraun. Í kjölfar umsagnar nefndarinnar lagði bæjarráð til að Fagradalshraun yrði fyrir valinu.

Þegar samkeppninni var hleypt af stokkunum óskaði bæjarráð eftir hugmyndum að nafni bæði á hraunið og gígana en gígarnir hafa enn ekkert nafn fengið þrátt fyrir að fjölmargar hugmyndir hafi borist.

„Við bárum þetta undir örnefnanefnd og þeir lögðust gegn því að gígarnir fengju nafn að svo stöddu,“ segir Fannar Jónsson, bæjarstjóri í Grindavík, og bætir við: „Þar sem enn er ekki vitað hvernig þetta endar og gosinu enn ólokið taldi nefndin að best færi á því að hinkra með nafngjöf á gígana.“