Nýjar mælingar á gosinu í Meradölum hafa leitt í ljós að hraunflæði hefur minnkað umtalsvert frá því gosið hófst. Magnús Tumi Guðmundsson segir í samtali við Fréttablaðið að nýjustu mælingar hafi leitt þetta í ljós.

„Við sjáum að það hefur dregið verulega úr hraunrennslinu frá því sem var í upphafi. Það fer úr rúmlega 30 rúmmetrum á sekúndu niður í átján rúmmetra, en það er meðaltalið frá því klukkan fimm í gær og þangað til klukkan ellefu í morgun,“ segir Magnús og bætir við að þessi hegðun sé mjög algeng fyrir eldgos. Að mikið hraunflæði sé í fyrstu en dragi svo verulega úr.

„Við reyndar sáum þetta ekki í síðasta gosi í Fagradalsfjalli en það var dálítið sérstakt. En nú er bara að sjá hvernig þetta mun hegða sér. Það stendur til að mæla aftur á morgun ef veður leyfir og þá sjáum við hvort þetta heldur áfram að minnka og hvaða þróun er á þessu,“ segir Magnús Tumi.

Hvað jarðskjálfta varðar segir hann að litlar líkur séu á skjálftum nú eftir að gosið er byrjað. „Það er náttúrulega ekkert sem er algerlega út úr myndinni. Núna þegar þetta hefur opnast þá er búið að slaka heilmikið á spennunni og þá verða yfirleitt ekki neinir umtalsverðir skjálftar. En þetta sáum við í gosinu í fyrra“.