Hraun hefur tekið að renna úr Geldinga­dölum og í austur átt. Þor­valdur Þórðar­son eld­fjalla­fræðingur segir að ef hraunið rennur alla leið niður í Mera­dali mun það hafa á­hrif á vin­sæl út­sýnis­svæði.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Þor­valdur að nýju gígarnir eru að stýra hraun­flæðinu í austur átt.

„Það er bara nægi­lega mikið flæði frá þessum gíg til þess að byggja hraunið nægi­lega hátt upp að það komist yfir haftið,“ segir Þor­valdur.

„Það fer þarna niður brekkuna og svo er spurning hvort hraunið fari í suður­átt eða í áttina að Nátt­haganum eða hvort það fer í norð­austur­átt og ofan í Mera­dali eða hvort það nær að fara þá vega­lengd,“ segir Þor­valdur.

Vinsælt útsýnissvæði í hættu

Spurður um hvað sé þarna á svæðinu, segir Þor­valdur að það séu engir inn­viðir eða neitt slíkt sem þarf að huga að.

„Það eru engir inn­viðir að fara undir hraunið. Þetta hraun­flæði verður meira og minna bundið við Fagra­dals­fjallið og fjöllin í kring,“ segir Þor­valdur og bætir við að þetta mun hins vegar hafa á­hrif á vin­sæla út­sýnis­svæði

„Þetta lokar fyrir þessa eystri göngu­leið. Ef þetta hraun nær saman við hraunið sem er fyrir í Mera­dölum þá er enginn leið að gígunum að austan­verðu þar sem fólk hefur verið undan­farna daga. Það mun lokast þar sem fólk hefur verið næst gígunum.“