Slasaðri brand­uglu sem sat föst í girðingu undir Eyja­fjöllum var bjargað af ár­vökulum veg­faranda á dögunum.

Dýra­þjónusta Reykja­víkur segir frá þessu í færslu á Face­book-síðu sinni en uglunni var komið í hendur Dýra­þjónustunnar þar sem hún fékk að ná áttum áður en gert var að sárum hennar.

Í færslunni kemur fram að hrafnar hafi verið farnir að kroppa í ugluna og því mátti varla á tæpara standa. Uglan var með sár á væng og á fæti en þó ó­brotin sem veit á gott. Tekið er fram að væng­brotnir fuglar eigi litla mögu­leika á fullum bata og þar með að bjarga sér úti í náttúrunni.

„Núna er uglunni haldið innan­dyra meðan hún er í verkja- og sýkla­lyfja­með­ferð og safnar kröftum,“ segir í færslunni. Þá standa vonir til þess að hægt verði að setja ugluna í úti­búr í Fjöl­skyldu- og hús­dýra­garðinum í Reykja­vík fyrir ára­mót.

„Þar verður fylgst með bata hennar og svo í fram­haldi vonandi hægt að sleppa henni aftur á sínar heima­slóðir ef allt gengur sam­kvæmt plani,“ segir í færslunni en þar kemur jafn­framt fram að með­fylgjandi mynd hafi verið tekin af dýra­hirði þegar uglan kom.