Hrafn Jökulsson er látinn eftir harða baráttu við krabbamein í hálsi. Hrafn fæddist þann 1. nóvember 1965 og var því rétt tæplega 57 ára þegar hann lést. Æxlið, sem Hrafn kallaði Surtlu, uppgötvaðist seint í júní á þessu ári og Hrafn mætti henni æðrulaus og baráttuglaður í erfiðri geisla- og lyfjameðferð.

Hann háði baráttu sína upp á líf og dauða fyrir opnum tjöldum á Facebook með bjartsýnina og óbilandi lífsgleði að vopni til hinsta dags og hvatti á föstudaginn, í sinni síðustu færslu, vini sína til þess að hafa gleðina að leiðarljósi.

Hrafn lifði hratt og kom víða við á stuttri en litríkri ævi. Var ljóðskáld og rithöfundur. Byrjaði í blaðamennsku fimmtán ára á Tímanum og átti eftir að vekja mikla athygli sem, meðal annars, ritstjóri Alþýðublaðsins og tímaritsins Mannlíf. Þá var hann ódeigur baráttumaður fyrir bættum heimi og vart verður tölu komið á öll þau góðgerðarmál-, félög- og safnanir sem hann ýtti úr vör eða kom að með einum eða öðrum hætti.

Hrafn stofnaði Skákfélagið Hrókinn, sem lengi átti sitt varnarþing á Grand Rokk, 12. september 1998 en félagið átti eftir að ná undraverðum árangri á Íslandsmótum og standa að fjölda alþjóðlegra stórmóta á Íslandi.

Hrafn kom víða við sem skáld, blaðamaður, ritstjóri og skákfrömuður sem leiddi sigurgöngu Hróksins í tvo áratugi.
Fréttablaðið/Samsett

Í seinni tíð einbeitti Hrókurinn sér síðan að barnastarfi með heimsóknum í alla grunnskóla landsins, vikulegum heimsóknum á Barnaspítala Hringsins árum saman að ógleymdu skáktrúboði Hróksins á Grænlandi sem var fyrst og fremst ætlað að gleðja og efla grænlensk börn með því að kenna þeim skák.

Hrafn ræddi veikindin og tvær stefnur sínar á hendur íslenska ríkinu, fyrir annars vegar harkalega handtöku og frelsissviptingu og læknamistök hins vegar, í viðtali við Fréttablaðið fyrir þremur vikum. Þá lýsti hann því sem forréttindum að fá að „takast bæði á við íslenska ríkisvaldið og hana Surtlu mína í öllu sínu veldi samtímis.

Hrafn unni sér ætíð vel á reitunum 64 þar sem hann tefldi jafnan ljóngrimmur til sigurs.
Fréttablaðið/ÞÖK

Ég er í engum vafa um hvernig viðureign mín við íslenska ríkið fer en ég hef ekki hugmynd um hvort ég lifi sjálfur að sjá réttlætinu fullnægt. En sá dagur mun koma.“

Hrafn var sonur Jóhönnu Kristjónsdóttur, blaðamanns og baráttukonu, og Jökuls Jakobssonar rithöfundar. Hrafn og Oddný Halldórsdóttir gengu í hjónaband á Landsspítalanum þann 22. ágúst en Oddný var hans helsta stoð og stytta í baráttunni við krabbameinið.

Hrafn sagði frá giftingunni á Facebook með þeim orðum að 22. ágúst 2022 „uppfylltist mesta ævintýri lífs míns“ þegar séra Bjarni Karlsson gaf hann og sálufélagann sem hann hafði fundið aftur eftir 30 ára aðskilnað, saman í heilagt hjónaband.

„Mestu máli skiptir að ég leysti lífsgátuna mína og í sameiningu ætlum við að leiða til lykta lífsgátuna miklu, með gleði, kærleika og sigurvissuna að leiðarljósi.“

Hrafn lætur eftir sig fjögur börn; Þorstein Mána, 1984, Örnólf 1996, Þórhildi Helgu, 1999 og Jóhönnu Engilráð, 2009.

Hrafn sagði í viðtalinu við Fréttablaðið að hann gæti horft sáttur yfir farinn veg og gæti dáið sáttur þegar kallið kæmi: „Sannarlega! Þetta er búið að vera stórkostlegt líf. Ég held að ég hafi ekki fengið níu líf. Ég held að ég hafi fengið átján. Svona þegar ég hef verið að skoða mitt ævintýralega lífshlaup. Ég held það séu átján, kannski er ég bara búinn með sautján,“ sagði Hrafn í lok ágúst og áréttaði að það væri ekkert að óttast:

„Ég hef vanið mig á að hugsa um og fást við dauðann allt mitt líf,“ sagði Hrafn í Fréttablaðinu í ágústlok þegar Surtla var byrjuð að sækja í sig veðrið og hörð barátta var framundan.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Lífið er skemmtilegt. Það er engin ástæða til þess að vera hræddur. Við lifum í samfélagi sem er gegnsýrt af ótta. Mörgum finnst dauðinn vera tabú og erfitt að tala um hann. Ég hef vanið mig á að hugsa um og fást við dauðann allt mitt líf.

Hann hefur verið förunautur minn og ég þekki hann svo vel. Ég hef svo oft verið þar sem hann átti að vera en hann hefur ekki verið þar. Þannig að ef þú vilt vita leyndarmál þá er hann ekki til, skilurðu? Þannig að við þurfum ekki að vera hrædd við eitthvað sem er ekki til. Ekki satt? Við getum byrjað þar. Ekki vera hrædd.“