Maður var handtekinn í verslun í Breiðholti á áttunda tímanum í gærkvöldi, en sá var staðinn að því að reyna að yfirgefa verslunina með vörur sem hann hafði ekki greitt fyrir. Þegar starfsmaður verslunarinnar reyndi að stöðva manninn hrækti hann í andlit starfsmannsins og hljóp út. Hófst þá heilmikill eltingaleikur, en annar starfsmaður verslunarinnar hljóp út á eftir manninum og elti hann þar til lögreglu bar að garði. Maðurinn var færður á lögreglustöð til skýrslutöku og látinn laus að henni lokinni. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Þá fékk lögregla tilkynningu á sjötta tímanum um hnupl úr verslunarmiðstöð í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Þar var ung kona staðin að þjófnaði á snyrtivörum og smákökum meðal annars. Við nánari eftirgrennslan mun þetta vera ítrekað brot hjá konunni og var máli afgreitt með vettvangsformi.
Tilkynnt var um mikla fíkniefnalykt á stigagangi í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði laust fyrir klukkan átta í gærkvöldi. Lögregla mætti á vettvang og þurfti að hafa afskipti af konu vegna gruns um vörslu fíkniefna. Ætluð fíkniefni voru haldlögð og málið afgreitt með vettvangsskýrslu.
Þá fékk lögregla þrjár tilkynningar um umferðarslys í gærkvöldi og nótt.
Í Hlíðahverfi var rafhlaupahjóli ekið utan í bifreið, en engin slys urðu á fólki. Tilkynnt var um útafakstur á Þingvallavegi laust fyrir miðnætti í gærkvöldi. Engin slys urðu á fólki og reyndist bifreiðin lítið skemmd við nánari eftirgrennslan, en mikil hálka var á vettvangi. Tæpum klukkutíma síðar barst lögreglu önnur tilkynning um útafakstur á Þingvallavegi. Að sögn lögreglu slösuðust tveir, en þó minniháttar.