Ekkert lát er á skjálftahrinunni sem stendur nú yfir á Reykjanesi en skjálfti af stærðinni 5,4 mældist við Nátthaga klukkan 14:15 í dag. Um er að ræða næst stærsta skjálftann sem mælst hefur í hrinunni, sem hófst með skjálfta af stærðinni 5,7.

Skjálftinn fannst alla leið norður á Sauðakrók og suður í Vestmannaeyjar og hafa fjölmargir íbúar höfuðborgarsvæðisins lýst því að þau hafi fundið mjög vel fyrir skjálftanum.

Skjálftinn var þó kraftmestur á Reykjanesi. Lesendur Fréttablaðsins sem staddir eru í Grindavík lýsa því að skjálftinn hafi verið svo öflugur að þau hafi jafnvel talið að hann væri allt að 6,0 að stærð.

Þrír í röð

Steinunn Dagný Ingvarsdóttir greinir frá því í samtali við Fréttablaðið að hún hafi verið stödd í Nettó í Grindavík þegar stærsti skjálftinn reið yfir en hún lýsir því að þrír skjálftar hafi komið í röð. Ákveðið var að rýma verslunina í kjölfarið.

„Það er í lagi með alla, en hræðsla í fólki,“ segir Steinunn en í myndbandi sem Steinunn birtir sést hvernig hlutir flugu úr hillum og brotnuðu. Myndbandið má finna hér fyrir neðan.

Áfram líkur á eldgosi

Líkt og áður segir er þetta stærsti skjálftinn sem mælst hefur í hrinunni en frá miðnætti hafa rúmlega 2000 skjálftar mælst sjálfvirkt hjá Veðurstofu Íslands.

Enn sem komið er eru ekki merki um gosóróa á svæðinu en talið er að eftir því sem virknin heldur áfram sé þeim mun líklegra að það gjósi.

Almannavarnadeild hefur ekki verið kölluð út vegna skjálftanna í dag en Veðurstofa Íslands fylgist vel með.