Berglind Kristófersdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir að flugfreyjur og flugþjónar hafi unnið þrekvirki er fárviðri gerði áhöfn og farþegum um borð í vélum Ice­land­air lífið leitt á sunnudag.

Dæmi eru um að áhafnir og farþegar hafi verið innilokuð í flugvél í 17 klukkustundir frá brottför í Ameríku uns yfir lauk. Of hvasst var til að ferja farþegana frá borði.

Berglind segir ákvæði í samningum sem tryggi að flugfreyjur fái greitt fyrir hina löngu vakt. Lögbundinn hvíldartími verði virtur.

„Þetta voru hræðilegar aðstæður, mjög erfiðar fyrir alla,“ segir Berg­lind. „Það eru margir farþegar með alls konar vandamál, en flugfreyjur og flugþjónar eru frábær hópur sem hefur verið þjálfaður sérstaklega til að takast á við svona ástand. Ég hef ekki heyrt annað en að allt hafi gengið vel.“

Berglind segist ekki hafa forsendur til að meta hvort vistir um borð í vélunum þrutu eða ekki. Um það ber yfirstjórn Icelandair og farþegum ekki saman. Berglind segir þessar uppákomur fátíðar.

„Svona ástand hefur komið upp, en ég hef ekki heyrt af neinu viðlíka í langan tíma.“