Colleen Gorman, stofnandi The Orca Project, ræddi við Fréttablaðið um örlög tveggja háhyrninga sem voru veiddir við strendur Íslands á áttunda áratugnum og seldir til SeaWorld. Hún segir enga háhyrninga drepast úr elli í skemmtigörðum.

Colleen var herflugmaður þegar hún var yngri og flaug oft til Íslands en hún var einnig í sambandi við manninn sem flaug með Keikó til Íslands.

„Katina er orðin 44 ára gömul. Hún var veidd árið 1978 rétt fyrir utan Skarðsfjöru á Íslandi. Hún er enn í Orlando í Flórída. Ég hef séð hana oft og mörgum sinnum og það nístir hjarta mitt í hvert sinn. Hún horfir á sjónvarpsskjá þar sem hún fær að fylgjast með villtum háhyrningum. Katina er ættmóðirin og gefur ávallt af sér marga kálfa og hún ræðst ekki á þjálfara sína,“ segir Colleen Gorman, forsvarsmaður The Orca Project, í samtali við Fréttablaðið.

Colleen var ráðgjafi fyrir heimildarmyndina Blackfish um há­hyrn­inginn Tilik­um sem veiddur var við strendur Íslands og seldur til Seaworld.

Katina horfir á myndbönd af villtum háhyrningum í tanki sínum í SeaWorld í Flórída.
Colleen Gorman/The Orca Project

Katina var veidd við Íslandsstrendur á áttunda áratugnum ásamt systur sinni Kasatka, sem drapst fyrir tveimur árum. Kasatka var „étin lifandi“ af sýklum í tanki sínum í Seaworld og var hún deydd með svæfingu árið 2017 að sögn Colleen.

Kasatka var með lungnasýkingu látlaust í tæplega tíu ár áður en hún var svæfð. Colleen segir að þrátt fyrir að Kasatka hafi verið fárveik hafi SeaWorld ákveðið að frjóvga hana árið 2011 og neyða hana til að bera sinn fjórða kálf fyrir garðinn.

Kasatka var „étin lifandi“ af sýklum í tanki sínum í Seaworld og var hún deydd með svæfingu árið 2017.
The Orca Project

Ljósmyndari á vegum The Orca Project náði myndum af Kasatka áður en hún drapst. SeaWorld henti ljósmyndaranum úr garðinum þegar upp komst um hann og hefur hann fengið lífstíðarbann.

„Ég hef verið í sambandi við marga á Íslandi varðandi háhyrninginn Tillikum. Ég reyndi að fá hann sendan heim til Íslands svo hann gæti lifað það sem eftir væri í athvarfi við strendur Íslands. En hann drapst árið 2017 á sínu „blómaskeiði“ og það var hræðilegur dauði.“

Colleen segir að baráttuandi hennar og áhugi á háhyrningum hafi kviknað þegar hún kynnti sér sögu Keikó. Í þá daga var hún herflugmaður og flaug oft til Íslands. Hún segist hafa lagst á hnén og grátið þegar hún frétti af dauða Keikó.

„Enginn háhyrningur hefur dáið úr elli í skemmtigarði.“

„Ég var í sambandi við mann sem flaug með Keikó til Íslands frá Oregon í C-17 herflutningavélinni,“ segir Colleen.

„Þegar Tillikum drap þjálfarann sinn varð ég að komast að því hver örlög háhyrningsins hefðu verið og þá setti ég saman hópinn sem stóð að heimildarmyndinni Blackfish,“ segir hún. Í upphafi hafi hennar heitasta ósk verið að SeaWorld yrði lokað.

Nú sé markmið hennar í lífinu að fá SeaWorld til að breyta viðskiptalíkani sínu, svo þeir snúi sér frekar að rússíbönum, heldur en að notfæra sér gáfuð dýr til skemmtunar.

„Líf mitt hefur snúist um þetta síðustu tíu ár.“ segir Colleen.

The Orca Project

„Það eina sem ég vil er að SeaWorld sendi öll dýrin sín í athvörf svo þau geti lifað það sem eftir er í náttúrulegu umhverfi í umsjá sjávarlíffræðinga og hvalasérfræðinga,“ segir Colleen.

„Enginn háhyrningur hefur dáið úr elli í skemmtigarði. Dauðdagi þeirra allra er hræðilegur og SeaWorld hafa aldrei birt krufningarskýrslur sínar.“

Hún bendir á að SeaWorld hafi einungis varið 0.0006 prósentum af tekjum sínum í verndunaraðgerðir fyrir hvali.

„Þetta ætti að vera í forgangi. Við lifum á 21. öldinni og okkur ber að frelsa þessi gáfuðu dýr. Þau eiga ekki heima í litlum tönkum okkur til afþreyfingar.“

Colleen Gorman stofnandi The Orca Project.
The Orca Project