Það eru eflaust margir dýraeigendur sem kvíða því að dýr þeirra fælist við sprengingar á og í kringum gamlárskvöld. Eygló Anna Guðlaugsdóttir, ráðgjafi hjá samtökunum Dýrfinnu og hundasveitinni segir fólk farið að taka aukin skref til þess að fyrirbyggja það að dýr týnist yfir hátíðirnar.
„Það er fullt af fleira fólki farið að kaupa GPS vesti og ólar fyrir dýrin sín. Svo er það orðið aðeins strangara hvort fólk eigi að fara út með hundana þegar það er búið að rökkva eða hvort það nýti dagsbirtuna. Því við vitum öll að það er ekki jafn gaman að skjóta upp í birtu,“ segir Eygló sem hún telur að ákveðnir hópar innan samfélags séu að gera sér grein fyrir vandamálinu.
„Okkur finnst fólkið sem er lenda í því sjálft að það týnist dýr yfir áramótin og fólkið í kringum þau er að vakna vegna þess að þetta hefur þá gerst áður,“ segir hún,
Ekki bara hundar sem fælast
Eygló segir að það séu heldur ekki bara hundar sem eru að fælast á áramótunum heldur verði aðrar tegundir dýra einnig skelkaðar þegar sprengjurnar fara að springa.
„Við höfum ekki bara leitað að hundum og köttum heldur höfum við leitað að hrossum líka. Fólk hugsar stundum ekki út í það að aðrir geti verið á hestbaki hvenær sem er í kílómeters fjarlægð frá þeim stað þar sem þú ert að sprengja flugelda,“ segir Eygló og bendir þá einnig á að aðstæður fyrir hross séu núna sérstaklega erfiðar.
„Á Íslandi er núna allt fullt af snjó og ef við skoðum tilfelli hestanna þá eru allar girðingar á bólakafi um flest allt landið. Ef fólk er að fara að sprengja mikið þá gæti alveg hrossahópar farið að týnast því þeir geta bara gengið yfir girðingarnar sínar þegar þeir eru orðnir hræddir,“ segir Eygló og bætir við
„Hrædd dýr þau hlaupa bara. Þetta eru lifandi dýr sem við erum að henda út í þessar aðstæður.“

Finnast ekki alltaf á lífi
Eygló segir að það sé líka ekki öllum tilfellum sem hundar og önnur dýr sem týnast finnist aftur lifandi.
„Áramótin í fyrra voru fyrstu áramótin þar sem enginn hundur deyr eftir að hafa týnst vegna hræðslu við flugelda. En árið þar á undan þá létu fjórir hundar lífið,“ segir Eygló og undirstirikar að um raunveruleg áhrif vegna óhóflegra sprenginga sé að ræða.
Góð ráð til dýraeigenda
Umspurð um það hvaða ráð hún hefur fyrir fólk sem sér fyrir sér að dýrin geti orðið skelkuð í kringum áramótin segir hún ýmislegt hægt að gera.
„Fyrir það fyrsta ef þú veist að hundar eða dýr eru að fara að vera hrædd þá er hægt að mæla til dæmis með myndböndum af flugeldum á Youtube og svo að gefa þeim nammi á meðan þessi hljóð eru í gangi því þá fara dýrin að tengja hvellina við jákvæðan hlut,“ segir Eygló sem lumar einnig á öðrum ráðum til dýraeigenda.
„Aðallega viljum við minna fólk á að ef það er með matarboð eða partý yfir gamlárskvöld þá passa að hundar og önnur dýr komist ekki í þær aðstæður að þau komist í gegnum útidyrahurðina þegar gestir eru að koma inn. Eða krakkar eru að hlaupa í útidyrahurðina til þess að fara út og skoða flugeldana,“ segir Eygló.
Dýrin geta verið óútreiknanleg
Eygló bendir einnig á að hundur eða annað dýr sem ekki fældist í fyrra geti auðveldlega fælst þetta árið ef sprengja springur nálægt.
„Þótt að maður treysti hundinum sínum hundrað prósent þá geturðu samt aldrei treyst honum hundrað prósent í þessu. Vegna þess að allir þessir hundar sem eru að týnast þeir eru ekki að týnast vegna þess að eigendum langi að þeir týnist,“ segir hún.
Óþarfi að sprengja sífellt
Eygló biðlar þá einnig til fólks að vera ekki að sprengja á öllum tímum dags í kringum þennan dag þrátt fyrir að löglegt sé að sprengja á þessum tíma.
„Hundrað prósent. Þetta eru erfiðar dagsetningar fyrir dýrin. Það er leyfilegt að sprengja frá 28. desember til 6. janúar en það er óþarfi að gera það frá fimm til miðnættis alla daga,“ segir Eygló að lokum.
Ef dýr týnist um áramótin er hægt að hafa samband við samtökin í síma 8425460 eða 7754234 eða með því að senda póst á dyrfinna@dyrfinna.is og eru samtökin einnig með ýmislegan búnað til sölu sem fyrirbyggja það að dýr týnist.