Minkar sem hafa verið aflífaðir í Danmörku vegna stökkbreyttu kórónuveirunnar hafa verið grafnir í fjöldagrafir á gömlu heræfingasvæði við Holstebro, á Vestur-Jótlandi. Minkanir eru grafnir í grafir sem ná að minnsta kosti einn metra ofan í jörðina.

Nátturöfl hafa þó valdið því að meirihluti dýranna hefur þrýst upp úr gröfunum og á yfirborð jarðarinnar. Þetta staðfestir ríkislögreglan í Danmörku, sem hefur umsjón með minkagröfunum, í samtali við danska ríkisútvarpið, DR.

„Þegar hræin byrja að rotna, eða brotna niður, myndast lofttegundir sem valda því að hræin stækka og getur orðið til þess að þau ýtast upp úr jörðinni," segir Thomas Kristensen, upplýsingafulltrúi ríkislögreglunnar.

Á mánudagsmorgun mátti sjá hundruð minka hræja liggjandi víðs vegar um svæðið en þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist.

„Þetta er náttúrlegt ferli sem við höfum reynt að finna á lausn á með því að leggja meiri mold ofan á grafirnar. Vandamálið er að jarðvegurinn hér á Vestur-Jótlandi er of léttur," útskýrir Kristensen.

„Það er ekki það sama sama að grafa einn metra í hvaða jarðveg sem er, það fer eftir því úr hverju jarðvegurinn er."

Minkarnir eru sprautaðir með kalki áður en þeir eru grafnir.
Fréttablaðið/AFP

Sýkingarhættan er lítil

Svæðið þar sem minkarnir eru grafnir er vaktað allan sólarhringinn en einnig stendur til að girða svæðið af. Hægt er að smitast af dauðum dýrunum en líkurnar eru þó litlar.

„Minkur sem hefur greinst með kórónuveiruna smitar fyrst og fremst aðra með öndun. Dauðir minkar smita því síður en lifandi minkar. Veiran getur þó enn lifað á feldinum," útskýrir Kristensen.

Hann segir jafnframt ómögulegt að útiloka að þetta muni gerast aftur, að hræin endi á yfirborði jarðar. „Þetta er óvenjulegt ástand, það er lítið sem við getum gert í þessu."

Danska ríkisstjórnin fyrirskipaði í byrjun mánaðarins að allir minkar í landinu yrðu aflífaðir vegna þess að kórónuveiran hefði stökkbreyst í dýrunum og borist í fólk. Óttast var að þetta gæti leitt til þess að bóluefni við veirunni yrðu gagnslítil.

Síðar kom í ljós að lagaheimild skorti til að fyrirskipa að dýrum á þeim búum þar sem ekki hafði komið upp smit yrði lógað. Minkamálið svokallaða hefur valdið miklum styr í danskri pólitík, en Mogens Jensen, landbúnaðarráðherra Danmerkur sagði af sé embætti vegna málsins í síðustu viku.