Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og prófessor í sýklafræði við Háskóla Íslands, segir mikilvægt að vita hvernig nota eigi hraðpróf og sjálfspróf til að greina veiruna sem veldur Covid-19 ásamt því að þekkja helstu takmarkanir þeirra svo að tilætlaður árangur náist. „Röng notkun og oftrú á þessum prófum getur þvert á móti stuðlað að frekari útbreiðslu veirunnar,“ segir Karl.

Hann segir bæði hraðprófin og sjálfsprófin óáreiðanlegri en PCR-prófin sem að mestu hafa verið notuð hér á landi til að greina veiruna fram að þessu. Sjálfsprófin séu þó einnig óáreiðanlegri en hraðprófin. Helstu takmörkun hraðprófanna segir hann þá að þau séu ekki nægilega næm til að greina alla sem eru með Covid-19.

Karl G. Kristinsson yfirlæknir á Landspítala og prófessor við HÍ.

„Næmi prófanna fer eftir veirumagni í nefkokinu. Því meira magn veira, því meira smitandi er viðkomandi einstaklingur og hraðprófið því líklegra til að verða jákvætt,“ segir Karl. „Hjá einstaklingum með mikið veirumagn getur næmið verið allt að 100 prósent, en hjá þeim sem eru með minna veirumagn getur næmið farið vel niður fyrir 50 prósent.“

Karl segir niðurstöðu hraðprófanna því geta veitt falska, neikvæða niðurstöðu. „Falskt neikvæð hraðpróf geta gefið falskt öryggi og viðkomandi einstaklingar fara þá ekki í einangrun og halda áfram að smita.“

Hraðpróf sem leyfð eru hér á landi skulu framkvæmd af heilbrigðisstarfsmanni sem hlotið hefur þjálfun, eða sérþjálfuðum starfsmanni sem fengið hefur sérstaka þjálfun frá heilbrigðisstarfsmanni. Í hraðprófum þarf sýnatökupinninn sem notaður er að fara um 10 sentímetra inn í nefið, alveg aftur í nefkokið, til að ná sýni sem greint er með prófinu. Sjálfsprófin, sem einstaklingar geta framkvæmt sjálfir, eru flest gerð fyrir nefstrok og fer þá sýnatökupinninn einungis 2-4 sentímetra inn í nefið.

„Prófefnin eru sambærileg þeim sem notuð eru í almennum hraðgreiningarprófum, en ekki eru gerðar eins strangar kröfur til gæða, innflutnings og sölu og með prófefnin í hraðgreiningarprófin,“ segir Karl.

Þá segir hann tvennt gera sjálfsprófin óáreiðanlegri en hraðpróf sem framkvæmd eru af aðila með þjálfun. Sýnin séu tekin frá stöðum þar sem líklega sé minna veirumagn, þar sem pinninn fer ekki eins langt inn í nefið. Þá hafi prófin ekki verið skoðuð af Embætti landlæknis og fengið leyfi ráðuneytisins og því sé möguleiki á að þau séu ekki eins næm til að greina lítið veirumagn.

„Vegna alls þessa er mikilvægt að þessi próf séu ekki notuð af þeim sem eru með einkenni sem geta samrýmst Covid-19. Allavega má ekki treysta neikvæðri niðurstöðu,“ segir Karl og bætir við að einstaklingar með einkenni Covid-19 eigi að fara í PCR-próf. „Auðvelt er að komast í einkennasýnatöku og RT-PCR próf á Íslandi með pöntunarkerfinu í Heilsuveru.“