Umsjón hraðprófa í Kaupmannahöfn er í uppnámi vegna tæknibilunar í kerfi sem heldur utan um framkvæmd og skráningu hraðprófa. Heimildarmaður danska fréttamiðilsins TV2 lýsir stöðunni sem neyðarástandi og bilunin komi upp á versta tíma.

Langar biðraðir hafa myndast í Covid-19 hraðpróf í Kaupmannahöfn vegna hruns í kerfum Copenhagen Medical, sem heldur utan um skráningu niðurstaða hraðprófa á svæðinu.

Þorláksmessa er einn annasamasti dagur ársins til þessa en sem stendur hafa prófanir stöðvast með öllu.

„Kerfið liggur niðri í borginni. Þetta er einhvers konar kerfistengt hrun og við gerum allt til þess að koma kerfunum í lag sem fyrst. En við vitum ekki hvenær það verður,“ segir Trine Baadsgaard, talsmaður Copenhagen Medical. Hún vísar notendum á vefsíðu fyrirtækisins til þess að fylgjast með framvindu mála.

„Við uppfærum síðuna okkar stöðugt, og það er besti staðurinn til þess að fylgjast með þessu. Við bíðum upplýsinga frá yfirmanni kerfismála sem er undir gríðarlegu álagi núna,“ segir Baaddsgaard, og bætir við að bilunin hafi varað í rúmlega klukkustund.

Hún segir sömuleiðis, vegna fjölda fyrirspurna, að próf Copenhagen Medical séu ekki samþykkt til heimanota og því geti þau ekki afhent fólki prófin beint.

Fólki vísað heim

Samkvæmt heimildarmanni TV2 er almenningi á starfstöð í Hvidovre nú bent á að ekki verði hægt að fá próf í dag og þau verði að fara heim. Einnig hafa borist fregnir af gríðarlega langri og „frosinni“ röð, við Forum í Frederiksberg.

Carelink, fyrirtækið sem sér um hraðpróf í Suður-Danmörku hafa einnig sent frá sér tilkynningar vegna kerfisbilana. Þar hefur hægst umtalsalsvert á þjónustunni þó að hún liggi ekki niðri.

Carelink hefur ræst út neyðarviðbúnað vegna þessa og rannsakar orsök þessara bilana.

Talsmaður Falck, fyrirtækis sem sér um hraðpróf á Sjálandi og hluta af Jótlandi, segir þó allt gott að frétta þeim megin, og hefur ekki fengið neinar meldingar um bilanir hingað til.