Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir hraðpróf geta verið lykillinn auknu frjálsræði og opnari samfélagi reynist þau vel á næstu dögum og vikum.

Nýjar tilslakanir tóku gildi í vikunni en þá fóru almennar fjöldatakmarkanir úr 200 manns í 500 manns og 1500 manna samkomur leyfðar með notkun hraðprófa. Sömuleiðis lengdist opnunartími skemmtistaða um klukkutímá eða til klukkan 01:00.

Aðspurður segist Þórólfur ekki sérstaklega stressaður fyrir þessari helgi umfram aðrar.

„Ég vona að fólk haldi áfram að passa sig svo það þurfi ekki opinber tilmæli eða reglur til að fá fólk til að passa sig. Fólk veit hvað þarf til að koma í veg fyrir smit og ég vona að allir hafi það í huga,“ segir Þórólfur í samtali við Fréttablaðið.

Þórólfur segir hraðprófin mögulega opna fyrir að frekari tilslakanir í samfélaginu, en þó sé of snemmt að fara að huga að því.

„Ég held að við þurfum að fá reynslu af þessu áður en við förum að hugsa lengra. Ef þessi hraðpróf reynast vel gætu þau verið lykillinn að því að opna meira og hafa meira frjálsræði. Það er auðvitað mikið frjálsræði í samfélaginu þó það séu takmarkanir upp á 500 manns.“

Heilbrigðisráðherra tilkynnti á vef Stjórnarráðins í dag að Sjúkratryggingar Íslands muni taka þátt í kostnaði við töku hraðprófa hjá einkaaðilum frá og með 20. september.

Kosningavökur eru framundan.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Frambjóðendur þurfa að passa sig eins og aðrir

Alþingiskosningar fara fram á laugardaginn 25. september næstkomandi og munu þá flokkarnir halda sínar kosningavökur og eflaust margir kjósendur sem munu efna til veislu í tilefni af deginum. Segir Þórólfur og líkt og með aðrar samkomur þurfi fólk að hafa varann á.

„Alls staðar þar sem fólk kemur saman og passar sig ekki og hegðar sér ekki í anda góðra sóttvarna er smithætta fyrir hendi, hvort sem það er kosningavaka eða kosningapartý eða eitthvað annað.“

Ertu með einhver ráð fyrir frambjóðendur?

„Ekki sérstaklega umfram aðra hvað varðar sóttvarnir. Ég gæti svo sem reynt að gefa þeim önnur ráð en ég læt það liggja á milli hluta.“

Sjaldgæft að börn veikist alvarlega

Tvö börn liggja nú á barnaspítala Hringsins vegna Covid-19, unglingsdrengur á 14 ári og tveggja ára barn. Áður kom fram að börn hafi verið á gjörgæslu en Þórólfur áréttar að þau séu á barnaspítalanum.

„Það er sjaldgæft að börn veikist alvarlega af Covid-19 en auðvitað kemur að því þegar fleiri börn smitast. Að þau veikist alvarlega og þurfi að leggjast inn á spítala. Það kemur ekki á óvart en auðvitað er þetta alltaf áhyggjuefni. Við þurfum bara að halda þessum faraldri þannig í skefjum að sem fæstir verði alvarlega veikir,“ segir Þórólfur.

Börnin eru bæði á þeim aldrei að þau hafa ekki fengið fulla bólusetningu. Annað var búið að fá aðra sprautuna.