Akstur bifreiða á 30 kílómetra hraða á klukkustund frekar en 50 km hraða getur dregið úr svifryksmengun um allt að því 40 prósent. Nagladekk slíta vegum 20 til 30 falt hraðar en ónegld.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn sem unnin var af Þresti Þorsteinssyni prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Ísland og Jarðvísindastofnun HÍ. Niðurstöður hennar voru kynntar skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar í morgun.
Lækkun hámarkshraða á nagladekkjatímabili í Reykjavík, sem er frá 1. nóvember til 15. apríl, gæti dregið mjög úr magni svifryks í andrúmsloftinu og sliti gatna að því er segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.
„Mengun vegna umferðar er þekkt vandamál og á Íslandi er það svifryk sem oftast veldur því að loftgæði versna og fara yfir heilsuverndarmörk. Magn mengandi efna er meðal annars háð hraða ökutækis, en það samband fer eftir tegund mengunar og ökutækis,“ segir í tilkynningunni.
Sé dregið úr aksturshraða úr 50 kílómetrum í 30 km á klukkustund dregst magn svifryks saman um 24 prósent samkvæmt rannsókninni. Búast við um 40 prósent samdrætti í magni svifryks ef helmingur bíla er á nagladekkjum og hraðinn færður úr 50 kílómetrum í 30 km á klukkustund.
Nagladekk séu helsti orsakavaldur svifryksmengunar vegna umferðar og slíta götum mun hraðar en þau sem ekki eru negld. Fyrir bíl á nagladekkjum er mikill meirihluti framleiðslu svifryks vegna vegslits eða 92 prósent.