Úrbætur á Norðurströnd á Seltjarnarnarnesi eru löngu tímabærar segja íbúar á Seltjarnesi en í gærkvöldi varð harður árekstur tveggja bíla eftir kappakstur ungmenna. Fimm voru fluttir á slysadeild og var talsvert tjón á bílunum tveimur.

„Því miður hefur hrað- og kappakstur verið vandamál á Norðurströnd í allt of langan tíma,“ segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar en hann segist hafa haft miklar áhyggjur af stöðunni í langan tíma.

Þór segir vandamálið sérstaklega mikið á sumrin, „þá eru menn að gefa í á mótorhjólum og þess háttar og það þarf lítið út af að bregða þegar fólk er að keyra út úr hverfisgötunum út á Norðurströndina til að slys verði,“ segir Þór.

Að sögn Þórs er það lögreglan sem ræður staðsetningu hraða- og sektamyndavéla og nauðsynlegt sé að ráðast í úrbætur til að koma í veg fyrir frekari slys.

„Við getum ekki horft upp á þetta, þessi slys. Það er bara allt of erfið áminning. Við verðum að gera eitthvað í þessu. Líka bara höfða til borgara og samfélags að keyra hægar þarna það er bara allt of erfitt að horfa upp á þetta,“ segir Þór.

Aðspurður hvort málið verði tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar svarar Þór játandi og að hann muni sjálfur setja sig í samband við lögreglu strax á eftir helgi til að óska eftir fundi varðandi aðgerðir á Norðurströnd.

Talsvert tjón varð á bílunum tveimur sem skullu saman í gærkvöldi og voru fjórir sjúkrabílar og einn dælubíll sendir á vettvang. Fimm voru flutt á slysadeild en grunur leikur á að ökumaður annars bílsins hafi verið undir áhrifum áfengis- eða vímuefna. Málið verður rannsakað af lögreglu.

„Hugur okkar er hjá þeim slösuðu og vonandi að þeir nái bata sem fyrst,“ segir Þór að síðustu.