Tölvuárás var gerð á póstþjón Háskólans í Reykjavík (HR) í síðustu viku og skrár dulkóðaðar. Í tilkynningu frá skólanum segir að tölvupóstar nemenda séu geymdir í „skýinu“ og hafi því ekki orðið fyrir árásinni. Enn sem komið er eru engar vísbendingar um að önnur upplýsingakerfi háskólans hafi orðið fyrir áhrifum af árásinni.

Allt bendir til að um tilfallandi árás sé að ræða, bundna við einn póstþjón, sem hafi ekki leitt til upplýsingataps eða gagnaleka. Talið er líklegast að tölvuþrjótarnir hafi nýtt sér veikleika í póstþjóninum.

Á póstþjóninum var skilið eftir bréf þar sem þess er krafist að HR greiði 10 þúsund dollara lausnargjald eða um 1,3 milljónir ella verði tölvupóstar starfsmanna gerðir opinberir.

Afstaða HR er þó skýr um að háskólinn mun ekki láta undan fjárkúgun og er sú afstaða í samræmi við leiðbeiningar lögreglu.