Dæmi eru um það hjá stórum hótelkeðjum á Íslandi að nýting herbergja sé orðin betri en hún var fyrir heimsfaraldurinn.

„Þetta hefur gerst hratt á síðustu vikum,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, sem reka Grand hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum og Fosshótelin hringinn í kringum landið.

Hann segir að viðspyrnan hafi byrjað strax í vetrarlok, en aðsókn á hótelin hafi verið afar góð í apríl og maí og hásumarið lofi sömuleiðis mjög góðu. „Ástæða þessa er eflaust uppsöfnuð ferðalöngun fólks,“ segir Davíð Torfi.

En ógnanir séu líka til staðar. „Hátt verð á aðföngum og eldsneyti getur hæglega dregið úr ferðavilja fólks, en ég er samt sem áður bjartsýnn á að haustið verði annasamt.“

Það er gott hljóð í fleiri greinum ferðaþjónustunnar. „Já, það er mjög líflegt hjá okkur,“ segir Bergþór Karlsson, hjá Bílaleigu Akureyrar. „Það stefnir í að þetta sumar verði á pari við 2019.“ Helsta ógnunin sé að nýir bílar berist síðar en til stóð.

Hjá rútufyrirtækjum hafa menn líka tekið gleði sína. „Þetta er allt á uppleið,“ segir Óskar Jósefsson, framkvæmdastjóri Grey-Line, sem þurfti að fara í nauðasamninga vegna verkefnaleysis í faraldrinum og safnar nýjum fjárfestum. „Við erum að endurheimta okkar fyrri styrk,“ segir Óskar.