Nóttin á almennu tveggja manna hótelherbergi hér á landi kostar nú í kringum 30-40 þúsund krónur, samkvæmt óformlegri könnun Fréttablaðsins sem framkvæmd var í vikunni. Skoðað var verð á hótelum af handahófi í sex bæjarfélögum hringinn í kringum landið.

Hægt er að finna ódýrari herbergi en það er í flestum tilfellum á gistiheimilum eða farfuglaheimilum. Þá fylgir yfirleitt ekki morgunverður og þjónustan ekki eins mikil og á hefðbundnum hótelum.

Samkvæmt verðgreiningu á hótelum frá Ferðamálastofu hefur mikið ris orðið í verðlagi hótela frá 2020, en það ár lækkuðu hótelherbergi mikið í verði vegna heimsfaraldurs sem þá geisaði.

Verðið er nú að leita í eðlilegt far á ný, að sögn Jakobs Rolfssonar, forstöðumanns rannsókna og tölfræðisviðs Ferðamálastofu. „Það er yfirleitt verið að bera saman til dæmis 2019 og 2022 og við erum að sjá að þetta er að leita í sömu mynstur,“ segir Jakob.

Hann telur þó ekki rétt að tala um að verð sé orðið of hátt. „Þótt Íslendingum finnist 40 þúsund fyrir hótelherbergi mikið á háannatíma á þéttsetnum ferðamannastað þá er það alls ekkert brjálað, miðað við hver eftirspurnin er núna,“ segir Jakob.

Jakob Rolfsson, forstöðumanns rannsókna og tölfræðisviðs Ferðamálastofu.

Snorri Pétur Eggertsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Kea hótela, segir að fullyrða megi að eftirspurn sé komin á sama stað og 2019 á flestum stöðum á landinu.

Snorri segir að með vaxandi eftirspurn muni verð hækka. „Verðlagning er langt yfir því verði sem var í gangi í Covid og eftirspurnin hefur boðið upp á verðlagningu sem er meira að segja stundum hærri en 2019,“ segir hann og bætir við: „Í Covid nýttu Íslendingar sér lága verðlagningu á þeim tíma, sem var gott fyrir báða aðila. En sú verðlagning stendur ekki undir hótelrekstri á Íslandi.“

Aðspurður segir Snorri að Íslendingar séu að bóka í mun minna mæli en áður. „Með hækkandi verði þá fækkar Íslendingum verulega, sérstaklega á lægra verðlögðum hótelum, þriggja stjörnu hótelum. Þau eru orðin of dýr fyrir Íslendinga svona almennt séð,“ segir Snorri.

Snorri Pétur Eggertsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Kea hótela.
Sú var tíðin að Íslendingar flykktust á Hótel Örk í Hveragerði til að láta dekra við sig. Verðin á Örk eru allt frá 25 til 62 þúsund fyrir nóttina í tveggja manna herbergi.
Hótel Búðir hafa lengi verið vinsæll viðkomustaður Íslendinga. Af bókunarsíðum að dæma eru almenn herbergi leigð á 40 til 80 þúsund.
ION er flott hönnunarhótel við rætur Hengils með flottu fjallaútsýni. Samkvæmt vefsíðu hótelsins kostar nóttin á almennu herbergi 53 þúsund krónur í júlí.